136. löggjafarþing — 83. fundur,  18. feb. 2009.

afstaða til Evrópusambandsaðildar.

[13:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er hægt að deila um það hversu mikilvægt er að ræða hin ýmsu mál á þinginu. En ég held að allir séu sammála um að mikilvægustu málin snúi að heimilunum og fyrirtækjum í landinu. Þó eru raddir hér innan þingsalarins sem telja að lykilatriðið til að taka á þeim málum sé að ganga í Evrópusambandið og þær raddir hafa verið mjög háværar. Hafa þær sérstaklega komið og kannski eingöngu frá Samfylkingunni.

Ég vil nota tækifærið og óska hv. þm. Jóni Bjarnasyni til hamingju. Hann er mun öflugri þingmaður en menn átta sig kannski á. Hann kom hér með mjög skýra og afdráttarlausa stefnu Vinstri grænna og það er augljóst, og það hefur komið fram hjá ágætum hæstv. utanríkisráðherra, að Samfylkingin hefur í engu náð að þoka Vinstri grænum í þessu stjórnarsamstarfi. Hefur hann lýst því yfir að einungis var um hænuskref að ræða, sem að vísu voru tvö hænuskref, virðulegi forseti, sem að vísu voru líka í gamla stjórnarsáttmálanum. Það er augljóst að þessi öflugi þingflokksformaður, hv. þm. Jón Bjarnason, hefur tekið Samfylkinguna niður og ekkert um það mál að segja.

Hitt er nokkuð athyglisvert og ég man ekki eftir því — ætla samt ekki að útiloka það — að menn hafi talað um samstarfsmenn í ríkisstjórn eins og gert var hér áðan. Hv. þm. Mörður Árnason sagði, og ég skrifaði það niður, virðulegi forseti, þegar hann talaði um þingmenn Vinstri grænna, og flokk Vinstri grænna, að þar væru þjóðernisbrjálæðingar sem stæðu í vegi fyrir öllum framförum. Þetta er orðrétt það sem hann sagði. Ég man ekki eftir því að menn hafi talað svona um samstarfsmenn í ríkisstjórn áður.

Það er augljóst að hv. þm. Jón Bjarnason er öflugur þingmaður og þingflokkur Vinstri grænna hefur náð því markmiði sínu að toga Samfylkinguna niður í þessu máli og deila má um hvort (Forseti hringir.) mikilvægt sé að ræða það eða ekki, en það er bara staðan.