136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[11:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þau þverstæðukenndu tímamót sem við lifum taka á sig einkennilegar myndir og það sem nú þykir sjálfsagt var óhugsandi fyrir jól. Eða eins og sagt var við mig á dögunum: Allt sem sagt var fyrir sex mánuðum er marklaust í dag og hefur glatað merkingu sinni.

Þetta er ein hlið kreppunnar. Önnur hlið hennar er sú að hér stendur nýr heilbrigðisráðherra sem á að gera grein fyrir stöðu heilbrigðismála eftir rúmlega hálfan mánuð í embætti. Einn kostur við þær aðstæður er að fara nokkrum orðum um búið sem hann tekur við. Sem betur fer er það ekki þrotabú. Heilbrigðiskerfið á Íslandi er það ekki eins og við blasir á öðrum sviðum, ýmsum, í bönkunum, í útrásinni og varðandi gjaldþrot frjálshyggjunnar. Heilbrigðiskerfið á Íslandi stendur sem betur fer styrkum stoðum á arfleifð sem menn skópu á 20. öldinni og var byggð á samstöðu og samstarfi. En það eru einmitt þessir þættir sem þarf að virkja að nýju til þess að verja kerfið við þær erfiðu aðstæður sem við búum við.

Þegar talað er um þrotabú frjálshyggjunnar og hvernig það snýr að heilbrigðiskerfinu á Íslandi þá er birtingarmyndin sú á þessu ári að okkur er gert að skera niður um 6.700 millj. kr. Sá hrikalegi efnahagsvandi sem þjóðin stendur frammi fyrir kallar á lausnir. Mér finnst brýnna að taka til hendinni og stuðla að lausn en að horfa til pólitísks uppgjörs. Það munu menn gera í komandi alþingiskosningum.

Hinn 7. janúar sl., stuttu eftir að Alþingi hafði ákveðið að skera niður fjárveitingar til heilbrigðisþjónustunnar, kynnti þáverandi heilbrigðisráðherra ýmsar fyrirætlanir sínar. Hann ætlaði t.d. að gera St. Jósefsspítala, Sólvang, að öldrunarlækninga- og hvíldarinnlagnarstofnun. Sérfræðingum og fagfólki sem þar starfaði og hafði framkvæmt skurðaðgerðir skyldi boðið að byggja upp skurðstofurekstur á Suðurnesjum en sem kunnugt er, og ítrekað kom fram í fréttum, renndu ýmsir fjárfestar hýru auga til þeirra áforma. Síðan átti Landspítalinn að yfirtaka skurðstofurekstur á Selfossi og aðrar breytingar voru fyrirhugaðar á þessu svæði.

Ef við síðan færum okkur út fyrir Elliðaárnar þá var fyrirhugað að sameina Norðurland allt í einni sameinaðri stofnun undir forustu sjúkrahússins á Akureyri, heilbrigðisstofnun Norðurlands. Samsvarandi sameining átti að eiga sér stað á Vesturlandi og hefur þegar verið framkvæmd á Austurlandi. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja átti að sameina Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem jafnframt tæki við umsjón með samningi sem er í gildi milli heilbrigðisstofnunarinnar á Höfn í Hornafirði og heilbrigðisráðuneytisins. Aðrar breytingar voru fyrirhugaðar, ýmsar, en þær áttu samtals að skila 1.300 millj. kr., 750 millj. kr. á suðvesturhorninu og 550 millj. kr. á landsbyggðinni allri.

Ég hef verið að fara í saumana á þessum útreikningum með sérfræðingum heilbrigðisráðuneytisins og á eftir að skoða þetta enn betur en verð að segja að mér finnst gögnin ekki í öllum tilvikum ýkja sannfærandi. Hitt er ljóst að það verður ráðist í þann niðurskurð og þann sparnað sem Alþingi ákvað með fjárlögum fyrir jólin.

Sumar þessara breytinga eru heppilegar og fullkomlega eðlilegar og ég hef sagt að ég styðji þær. Aðrar er ósætti um og ég hef ákveðið að endurskoða þær ýmsar. Ég vek athygli á því að þessar breytingar byggjast margar hverjar á stefnumótunarvinnu í heilbrigðisráðuneytinu sem fram hefur farið um langt skeið og eru óháðar öllum ráðherrum. Ráðherrar koma og fara en þessi vinna er unnin — og margt í henni er mjög gott — m.a. undir forustu Hallgríms Guðmundssonar sem stýrir stefnumótunarvinnu í ráðuneytinu.

Þessi stefna byggist á því að horfa heildstætt á landið í stað þess að horfa á það í eins konar bútasaumi. Þá er ekki nóg að horfa til samhæfingar og samræmingar á milli stofnana. Menn þurfa einnig að horfa til sjúklinganna, þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar. Og menn hafa vakið athygli á því, t.d. Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri á Akureyrarsjúkrahúsinu, á fundi okkar í gær — hann sagði að menn yrðu að horfa til þess þegar sjúklingar þyrftu að ferðast um langan veg og hefðu ekki aðstöðu á þeim stað sem aðgerðir færu fram til að dveljast dögum og hugsanlega vikum saman. Þetta yrði allt að horfa á í samræmi.

Í anda þessarar hugsunar hafa menn verið að skoða ástandið, t.d. hér á suðvesturhorninu. Menn komust að raun um það að framboð á skurðstofuhúsnæði er of mikið miðað við eftirspurn. Ég er sammála því að taka slíka hluti til endurskoðunar. Menn horfa líka til ýmissa ósanninda og leikaraskapar sem er einkennandi í þessu kerfi. Eða skyldu menn gera sér grein fyrir því að vanskil gagnvart Landspítalanum, hrygglengjunni í heilbrigðiskerfinu á Íslandi, nema 550 millj. kr. Vanskil sem iðulega standa á dráttarvöxtum. Það er alls kyns slíkur leikaraskapur og feluleikur í kerfinu sem kallar á uppstokkun.

Ein þeirra stofnana sem skuldar Landspítalanum er St. Jósefsspítali í Hafnarfirði, Sólvangur. Skuldin nemur 60 millj. kr. Það er opinbert leyndarmál og hefur verið fjallað um það á síðum blaðanna undanfarið, m.a. í Morgunblaðinu , að sérstakir samningar séu í gildi fyrir læknisverk unnin á St. Jósefsspítala. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem þar starfa eru á venjulegum kjörum.

Í grófum dráttum er það svo að sérfræðilæknar fá greiðslur fyrir unnin verk á grundvelli samninga sem gerðir eru á milli spítalans og viðkomandi sérfræðilæknis og eru að sjálfsögðu á ábyrgð stjórnar spítalans. Annars vegar eru þetta samningar frá 1997, sem hafa verið í gildi síðan þá, um aðkeypt læknisverk af hálfu spítalans, en einnig eru samningar frá öðrum tíma. En athugun leiðir í ljós að samtals fengu 27 sérfræðingar greitt samkvæmt báðum samningunum árið 2008 og 13 sérfræðingar fengu greiðslur sem eingöngu byggjast á samningi um ferliverk. Aðeins tveir fá greitt fyrir unnin verk sem einstaklingar en aðrir frá greiðslur í gegnum eignarhaldsfélög, sameignarfélög og svokölluð samlagsfélög.

Dæmi eru um að sameignarfélag læknis hafi á árinu 2008 fengið greiddar rúmar 24 millj. kr. Þetta er nettógreiðsla. Viðkomandi læknir eða félag er búið að greiða fyrir aðstöðuna og starfshlutfallið er rúmlega 60% með þeim fyrirvörum sem verður að hafa á um það þegar litið er til starfshlutfallsins en þetta eru stærðargráðurnar. Dæmi eru um að einkahlutafélag læknis hafi fengið greiddar 3 millj. kr. á árinu 2008 fyrir 10% starfshlutfall. Ég finn til mikillar samstöðu með þeim sem vilja halda uppi þjónustunni í Hafnarfirði en fyrirkomulag af þessu tagi gengur ekki og mér er óskiljanlegt að svona kerfi skuli hafa fengið að blómstra án þess að forverar mínir skuli hafa tekið á þessu. Ekki nóg með það. St. Jósefsspítali safnar vanskilaskuldum við Landspítalann sem ræður fólk á allt öðrum kjörum en hér er um að ræða. Halló, kallar fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég er hérna með þessar tölur og hann hefur ekki tekið á þessum vanda.

Ég hef í dag sent út erindi þar sem nefnd er skipuð fulltrúum Hafnarfjarðarkaupstaðar, hollvinasamtaka St. Jósefsspítala, og síðan sérfræðingum til þess að leggja fram tillögur sem eiga að vera tilbúnar eigi síðar en 12. mars nk. þar sem starfsemin á St. Jósefsspítala og starfsemi Landspítalans verði samhæfð með það í huga að tryggja framtíð St. Jósefsspítala. En ýmsar forsendur eru þar lagðar til grundvallar. Starfsfólki á ekki að segja upp störfum við þær breytingar sem hugsanlega verður ráðist í og læknum verður boðið upp á sambærileg kjör og tíðkast hjá starfssystkinum á Landspítalanum. Þetta er grundvallaratriði. Samhliða þessu hef ég ákveðið að ganga til samningaviðræðna við Hafnarfjarðarbæ um að færa heilsugæsluna og færa heilbrigðisþjónustuna í ríkari mæli til bæjarins eins og bæjaryfirvöld hafa margítrekað óskað eftir.

Varðandi breytingar á Norðurlandi þá fór ég í gær og í fyrradag um Norðurland og ræddi við sveitarstjórnarmenn, ræddi við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana á Norðurlandi vestra og á Norðurlandi eystra. Niðurstaðan úr þeirri ferð er ákvörðun sem er eftirfarandi: Ekki verður hreyft við fyrirkomulaginu á Norðurlandi vestra hvað varðar Hvammstanga, hvað varðar Blönduós og hvað varðar Sauðárkrók. Á Eyjafjarðarsvæðinu verður hins vegar keyrt á sameiningu. Þá er verið að horfa til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Dalvíkur og Akureyrar. Húsavík verður ekki þvinguð inn í slíka sameiningu enda er byggt á vilja fólksins á hverjum stað. Það er hlustað á sveitarstjórnarmenn og það er hlustað á forsvarsmenn þessara stofnana. Varðandi breytingar á Vesturlandi og Suðurlandi þá hyggst ég heimsækja þær byggðir á komandi dögum og endanlegar ákvarðanir verða ekki teknar fyrr en að þeim heimsóknum loknum.

Hæstv. forseti. Þá eru það lyfjamálin. Forveri minn í starfi lýsti því yfir í Morgunblaðinu nýlega að ég skreytti mig með stolnum fjöðrum. Stór hluti aðgerða núverandi heilbrigðisráðherra hafi þegar verið kominn í framkvæmd. Þetta er haft eftir fyrrum heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Við skulum fara aðeins í saumana á þessu.

Ég vil segja það við hv. þingmann að það er fjarri mér að bregða mér í þann búning sem hann ætlar. Það er fjarri mér að reyna að líma á mig einhverjar fjaðrir enda færi þá væntanlega fyrir mér eins og Buster Keaton í frægri gamanmynd. Hann hló og baðaði út vængjunum en komst aldrei á loft. Forveri minn hugðist, eins og hann segir í Morgunblaðsgrein, setja heildstæða reglugerð um lyfjamálin. Það gerði hann ekki. Hann ætlaði að sameina heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið. Það gerði hann ekki. Hann ætlaði að taka til í heilbrigðiskerfinu á suðvesturhorninu. Það gerði hann ekki. Hann segir orðrétt í Morgunblaðinu um lyfjareglugerðina sem gefin var út 30. janúar sl., með leyfi forseta:

„Þetta var nokkuð sem var búið að vera í undirbúningi lengi og var allt komið inn í reglugerð nema sjúklingaskatturinn og lækkun lyfjakostnaður fyrir atvinnulausa.“

Virðulegi forseti. Annaðhvort hefur hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra ekki lesið reglugerðina sem hann gaf út eða þá að hann hefur ekki kynnt sér til hlítar reglugerðina sem ég undirritaði. Af þessu tilefni finn ég mig tilneyddan til að upplýsa fyrrverandi heilbrigðisráðherra eða útskýra fyrir honum muninn á því sem hann sendi til birtingar 30. janúar og reglugerðinni sem ég kynnti tólf dögum eftir að ég tók við embætti.

Reglugerðin sem hv. þingmaður byggði á var ákvörðun Alþingis um að spara Tryggingastofnun 1.000 millj. kr. Reglugerðin sem hv. þingmaður gaf út, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, kvað á um sparnað upp á 100 millj. kr. Sú reglugerð sem ég gaf út tólf dögum eftir að ég tók við embætti fól í sér sparnað upp á 650 millj. kr. Þetta er munurinn. Þetta er einn munurinn í krónum talið.

Síðan er á það að líta að þar er ekki að finna ýmsa veigamikla félagslega þætti sem áhersla var lögð á í mínum breytingum. Þar horfði ég sérstaklega til atvinnulausra. Það er mikill harmleikur að missa atvinnuna og nú hafa 15.000 Íslendingar misst vinnuna. Og reglugerðin sem ég gaf út byggist á ábyrgri velferðarpólitík hvað þennan hóp snertir því að þeir eru teknir út fyrir sviga.

Þetta eru þær áherslur sem við í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur leggjum, við leggjum áherslu á félagslegt réttlæti. (Forseti hringir.) Ég mun, hæstv. forseti, fara nánar í (Forseti hringir.) þessa brotlendingu hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þær rangtúlkanir og falsanir sem hann hefur (Forseti hringir.) haft uppi um reglugerð í lyfjamálum, bæði hér í þingsalnum og síðan í makalausum yfirlýsingum (Forseti hringir.) sem hann hefur gefið í Morgunblaðinu. Ég mun taka þetta mjög nákvæmlega fyrir hér á eftir.