136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

heilbrigðismál, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[11:48]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á skammri stundu skipast veður í lofti og hinn háværi stjórnarandstöðuþingmaður, hv. þm. Ögmundur Jónasson, situr nú prúður sem fermingardrengur undir faðirvorinu á ráðherrabekknum og dettur hvorki af honum né drýpur. Hæstv. ráðherra, sem greiddi atkvæði gegn öllum tillögum við afgreiðslu fjárlaga um samdrátt í ríkisútgjöldum, þar á meðal í heilbrigðismálum, greiddi atkvæði gegn öllum tillögum um að auka tekjur ríkissjóðs og greiddi atkvæði gegn öllum tillögum um að fresta framkvæmdum hjá ríkissjóði, hefur nú lýst því yfir að hann muni hlíta niðurstöðum fjárlaga og skera verði niður útgjöld í heilbrigðiskerfinu um 6.700 millj. kr. á þessu ári. Hann beygir sig undir veruleikann sem blasir við þingheimi og hann hefur nú áttað sig á að er til staðar og jafnvel í verri mæli en þessar tölur gefa til kynna. Ég býð hann velkominn til veruleikans, virðulegi forseti.

Við erum að reka ríkissjóð með 150 milljarða kr. halla. Við höfum þrjú ár til að vinna bug á honum. Við vonumst til þess að fljótlega takist að koma atvinnulífinu aftur í gang og auka kaupmáttinn þannig að tekjur ríkissjóðs muni fara vaxandi — að við getum eytt fjárlagahallanum að einhverju leyti, og vonandi að verulegu leyti, með því að auka tekjur með þeim hætti og jafnvægi verði náð árið 2012. En við vitum að við þurfum meira til. Við þurfum að skera niður ríkisútgjöld árið 2010, árið 2011 og árið 2012. Hæstv. heilbrigðisráðherra veit að hann mun, ef hann situr í þessum stól, þegar fjárlög verða lögð fram í haust, þurfa að leggja fram fjárlagafrumvarp með niðurskurði frá því sem nú er. Hann veit það. Mér finnst, virðulegi forseti, af því að hann hefur áttað sig á þessum staðreyndum, að hann mætti gjarnan segja okkur frá því hverjar hans línur eru í komandi tillögum. Hans er ábyrgðin um þessar mundir að halda á heilbrigðismálunum og ég kalla eftir stefnu heilbrigðisráðherra um heilbrigðisútgjöld á komandi árum. Hvað ætlar hann að skera niður? Hvar ætlar hann að draga úr þessum útgjöldum?

Til þessarar umræðu er stofnað til að ráðherra geri grein fyrir 6.700 millj. kr. niðurskurði á þessu ári. Í 15 mínútna langri ræðu sinni sagði hæstv. ráðherra aðeins eitt. Hann ætlar að lækka lyfjaútgjöld um 650 millj. kr. með einni reglugerð. Annað sagði hann ekkert um. Hann sagði ekkert um það hvernig hann ætlar að ná þessum niðurskurði, sagði ekki orð um það. Það var upplýst í heilbrigðisnefnd í morgun af forsvarsmönnum Landspítalans að þeir munu draga úr útgjöldum sínum um 2.600 millj. kr. á þessu ári. Ef við leggjum það saman eru komnar tillögur, eða ákvarðanir skulum við segja, um 3.250 millj. kr. en eftir standa 3.450 millj. kr. Og hæstv. ráðherra hefur ekki sagt okkur hvernig hann ætlar að ná þeim sparnaði fram. Hann lýsti hugmyndum sínum um sameiningu eða ekki sameiningu heilbrigðisstofnana, hann sagði okkur ekki hvað hann ætlar að spara mikið með tillögum sínum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hverjar eru aðgerðirnar sem eiga að draga útgjöldin sama um 3.450 millj. kr. á þessu ári? Því lengur sem dregst að tilkynna um ákvarðanir þeim mun meiri sparnaði verður að ná fram á skemmri tíma. Hæstv. ráðherra hefur bara sjö mánuði til þess að ná þessum sparnaði vegna almennra fyrirvara sem gera verður á því að hrinda þeim í framkvæmd eins og með sameiningu stofnana og annað slíkt. Hvernig ætlar ráðherrann að ná þessum sparnaði? Ég kalla eftir þessum svörum sem áttu auðvitað að vera í skýrslu ráðherra, sem kinkar kolli algerlega hljóður, virðulegi forseti. Ég er svo kátur að sjá hæstv. ráðherra í þessari stellingu. Ég kann mjög vel við hann svona, (Heilbrrh.: Það er gaman að hlusta á þingmanninn.) virðulegi forseti.

En mig langar að leggja af mörkum hugmyndir um það hvernig við getum tekið á heilbrigðismálum á komandi árum og hvar við eigum helst að reyna að bera niður til að ná árangri í því sem við þurfum að gera án þess að það komi niður á þeim sem í hlut eiga meira en þörf er. Ég vil vísa til skýrslu OECD frá því í febrúar á síðasta ári. Meginniðurstaða hennar er sú að gæði heilbrigðisþjónustu á Íslandi séu öfundsverð. Við búum við kerfi sem er með þeim bestu í heiminum og við skulum halda því þannig, virðulegi forseti, og muna að það kerfi er svo gott sem raun ber vitni vegna þess að við höfum svo gott heilbrigðisstarfsfólk. Við skulum því í fyrsta lagi gæta þess í öllum aðgerðum stjórnvalda í þessum geira að vinna þær þannig að heilbrigðisstarfsfólkið sé meira og minna sátt við aðgerðirnar og með í ráðum, og það heyrðist mér á hæstv. heilbrigðisráðherra að hann vilji hafa að leiðarljósi og ég tel að það sé fagnaðarefni.

OECD bendir á ákveðnar stærðir sem við þurfum að hafa til umhugsunar:

1. Að útgjöld á mann til heilbrigðismála á Íslandi séu 40% hærri en meðaltal OECD en þjóðartekjur á Íslandi séu ekki nema 25% hærri en meðaltal OECD. — Við erum með heilbrigðisútgjöld sem eru mjög há og það bendir til þess að við getum lækkað þau án þess að það komi niður á gæðunum.

2. Að mönnun á ákveðnum dýrum heilbrigðisstofnunum sé meiri en er í alþjóðlegum samanburði.

3. Að of mikið af þjónustu sé veitt í of dýrum úrræðum eins og spítölum.

4. Að of mikið af langtímaumönnun fari fram á dýrum stofnunum.

Þetta eru ábendingar sem geta vísað okkur hvert við eigum að horfa þegar við leitum leiða til að draga saman útgjöldin á þann veg að það komi sem minnst niður á gæðum heilbrigðiskerfisins.

Ábendingar sem OECD er með eru:

1. Að skilgreina þarf vel magn og gæði þjónustunnar sem veitt er. Ég vil minna á öldrunarþjónustuna sem er líklega um 30 milljarða kr. útgjöld ríkissjóðs. Það er aðeins ein stofnun sem vinnur þá þjónustu í samningi við ríkið, samningurinn við Sóltún. Þar er þetta nákvæmlega skilgreint og ríkið fær þá þjónustu sem það er að kaupa. Í öllum öðrum stofnunum er enginn samningur, engin fyrirmæli og engar kvaðir á stofnanirnar þannig að það er algerlega óvíst hvort ríkið fær þá þjónustu sem það kaupir af þessum stofnunum. Við þurfum að gera það sama á þessum stofnunum og á Sóltúni og menn verða að fikra sig áfram víðar, með Sjúkratryggingastofnuninni, að samningsbinda þjónustukaupin.

2. OECD bendir á að hæfni stjórnenda heilbrigðisstofnana skipti mjög miklu máli um árangur í rekstri og að ábyrgð þeirra og valdsvið sé skýrt afmarkað. Þetta held ég að við þurfum að hafa í huga og ég held að hugmyndir hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem lutu að því að fækka dálítið yfirmönnum heilbrigðisstofnana, hafi að mörgu leyti verið skynsamlegar til að geta náð fram úrbótum á þessu sviði.

3. OECD er með þá ábendingu að færa eigi, eftir því sem hægt er, þjónustu frá spítölum yfir til heimilis, að spara peninga þarf ekki að vera verri þjónusta.

4. OECD bendir á að draga úr kostnaði við lyfjakaup með aukinni samkeppni og það er atriði sem ég heyri að hefur verið á borðum hjá fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi.

Þarna höfum við ábendingar sem við getum unnið nokkuð eftir til að komast í gegnum þetta tímabil og við megum ekki gleyma því að heilbrigðisútgjöld voru árið 1990 7,8% af vergri landsframleiðslu en voru árið 2005 komin upp í 9,5%. Aukningin á 15 árum varð 20%. OECD spáir því að aukningin fram til 2050 verði um 60% og ef sú spá gengur eftir verða heilbrigðisútgjöld 15,2% af vergri landsframleiðslu. Kerfið er dýrt. Það er innbyggður í því kostnaðarauki og það þarf stöðugt aðhald og eftirlit og athugun til að bæta það, ná árangri, halda kostnaði niðri eftir því sem kostur er sem mun takast, virðulegi forseti, ef mönnum ber gæfa til að hafa gott samráð og samstarf við fólkið sem vinnur í þessu kerfi.