136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:46]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er til bóta að fá inn í stjórnarskrána að þetta sé sameign þjóðarinnar, ég þræti ekkert fyrir það, það er ekki verra. Við megum samt ekki gleyma því að þetta er alveg eins í rafmagninu, þetta er alveg eins í auðlindum í jörðu, þ.e. gufunni. Þar eiga ríki eða sveitarfélög borholurnar og eiga gufuna í jörðu, en iðjuverið sem nýtir það og býr til úr því rafmagn eða leiðir heitt vatn í hús er fyrirtækið sem hefur nýtingarréttinn. (MÁ: Það á að borga fyrir það.) Já, já, til 65 ára hafa þessi iðjuver nýtingarrétt, t.d. í Svartsengi og annars staðar. Auðvitað er rétt að borga fyrir það en hagnaðurinn af gjörningnum er ekki í holunni eða landinu sem verið er að nýta heldur í orkuverinu sem selur orkuna.

Það er allt í lagi ef það er gert með þeim hætti að allir standi jafnir að nýtingu. Þegar við gefum nýtingarrétt á holu eða fiski í sjónum erum við farnir að mismuna. Það er sú hætta sem við stöndum frammi fyrir, að við mismunum fyrirtækjum eða einstaklingum með þeim hætti eins og hefur verið gert í sjávarútvegi og ég óttast að verði að stórum hluta líka gert í nýtingarrétti hvað varðar orku í iðrum jarðar og jafnvel annars staðar, m.a. líka í köldu vatni. Þetta eru hlutir sem við þurfum að vara okkur á, að lenda ekki með orkunýtingu með svipuðum hætti og í sjávarútvegi. Við þurfum (Forseti hringir.) auðvitað að passa okkur og við verðum að varðveita auðlindir okkar.