136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Af fjármálakreppu, gjaldþrotum heimila og fyrirtækja vegna hruns heils bankakerfis leiðir auðvitað samdráttur í kaupmætti. Breyttar áherslur í innkaupum, sparnaður og peningaleysi eru fylgifiskar atvinnuleysis. Samdráttur í verslun er auðvitað hluti af því umhverfi sem við erum í. Atvinnuleysið er ekki orsökin, heldur afleiðingin.

Þetta er erfitt fyrir verslunareigendur og það er rétt að mörg fyrirtæki munu fara í þrot á næstu vikum og mánuðum. Það eru líka mörg störfin sem hafa tapast og munu tapast. Ég tek undir þær áhyggjur sem hér hefur verið lýst yfir því að um 20% af þeim sem nú eru á atvinnuleysisskrá, um 3.000 manns af 15.000, hafa misst störf sín í verslun og þjónustu. Tíföldun á atvinnuleysi á einu ári í þessari grein er mikil blóðtaka. Það er fyrst og fremst verkefni þessarar ríkisstjórnar og okkar sem störfum á Alþingi að reyna að sporna gegn því og standa vörð um störfin. Ég er hins vegar ansi hrædd um að það verði ekki gert með því að skapa ný störf í verslun alveg strax. Störfin verða að koma annars staðar vegna þess að neyslan dregst einfaldlega saman, eins og hér hefur verið bent á, um 30% á tveimur árum, 2007–2009. Höggið í þessum geira er væntanlega þyngra vegna þeirrar gífurlegu offjárfestingar sem hefur verið í byggingu verslunarhúsnæðis og þeirrar miklu kaupgleði sem hefur endurspeglast í miklum viðskiptahalla og (Forseti hringir.) hefur verið fjármagnaður með erlendum lánum. Við þurfum að horfa á (Forseti hringir.) þessa heildarmynd þegar við ræðum stöðu verslunarinnar.