136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

innlend fóðurframleiðsla.

195. mál
[16:09]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi leggja nokkur orð í belg í þá umræðu sem hér fer fram um tillögu til þingsályktunar um innlenda fóðurframleiðslu. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Mér finnst tillagan eiga fullan rétt á sér og að ástæða sé til að huga að þessum málum og reyna að leggja sig fram um að auka íslenska fóðurframleiðslu. Það er bæði gjaldeyrissparandi eins og komið hefur fram og í alla staði jákvætt fyrir Ísland ef þetta gæti skapað einhver fleiri störf en eru í dag. Þetta er í samræmi við það sem er mjög ofarlega á baugi í allri umræðu hér á landi. Það er mikið talað um að hlúa að innlendri framleiðslu og nýta íslenska vöru eins og mögulegt er og það er mjög af hinu góða. En það er kannski umhugsunarefni að það hafi þurft þetta mikla hrun til að fólk færi virkilega að hugsa um hvað það skipti miklu máli að hafa það í huga, þótt sé ekki sagt meira eða tekið dýpra í árinni, þegar verslað er. En sannleikurinn er sá að nú hefur þessi umræða komið mjög öflug upp og ég er mjög ánægð með það.

Sá ræðumaður sem talaði næstur á undan mér vitnaði til ræðu sem hann flutti fyrir nokkrum árum þar sem hann hvatti fólk til að taka slátur og vakti athygli fyrir þau orð sín. Mér er mjög vel minnisstætt þegar hann lét þessi orð falla og eitthvað var brosað að þeim en nú má alveg segja að hann hafi þarna verið á undan sinni samtíð því í haust var mjög vinsælt að taka slátur og fólk sparaði þannig eitthvað í matarkaupum og er hið besta mál.

Mér finnst þó vera svolítill ráðstjórnarbragur á tillögunni. Sem dæmi má nefna að þegar tillagan er lesin eða tillögugreinin, það að láta kanna hagkvæmni þess að auka og styrkja innlenda fóðurframleiðslu til möguleika í landbúnaði og möguleika á því en hugmyndin er sú að ráðherra beiti sér fyrir einhvers konar úttekt á því hvaða möguleikar séu þarna fyrir hendi og ef þeir eru fyrir hendi þá komi ríkið hugsanlega að því að styðja á einhvern hátt við að farið sé út í frekari innlenda framleiðslu á fóðri fyrir fóðrun dýra. Það er mjög ánægjulegt að það hefur tekist núna fyrst í sambandi við kornræktina og það eru áreiðanlega frekari möguleikar í þeim efnum hér á landi.

Ég vil líka nefna í tengslum við tillöguna að auðvitað eigum við Íslendingar mikla möguleika þegar til framtíðar er litið í þessum heimi þar sem skortur á matvælum er jafnmikill og raun ber vitni. Hér eigum við mikið land og ég er alveg sannfærð um að til lengri tíma litið á það eftir að skipta máli í breyttum heimi þegar viðskipti aukast með fóður og matvæli frá því sem nú er. Þannig mun þróunin verða, það er enginn vafi á því og verður ekki komið í veg fyrir það í tengslum við samninga sem gerðir eru á alþjóðamarkaði um slíkt.

Ég vil hins vegar ekki taka undir með síðasta ræðumanni að það hafi eitthvað sérstaklega með það að gera hvort þeir sem styðja tillöguna eru hlynntir aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Mér finnst það vera allt önnur umræða. Ég veit ekki betur en þær þjóðir sem eiga aðild að Evrópusambandinu í dag séu allar meira og minna að velta því fyrir sér hvernig þær geti aukið matvælaframleiðslu og fæðuöryggi í löndum sínum þannig að það er allt önnur ella.

Hæstv. forseti. Ég vildi bara leggja nokkur orð inn í umræðuna og óska þess og vona það að þetta mál fái framgang á hv. Alþingi.