136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[16:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu og jákvæðan, velviljaðan tón í garð landbúnaðarins sem út af fyrir sig þarf ekki að koma á óvart. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að telja að landbúnaðarráðherra sé að leggja sig fram. Hitt er jafnljóst að hér er ekki hægt að lofa upp í tómar ermar ríkisstjórnar sem stendur frammi fyrir samþykktum fjárlögum með þeim niðurskurði sem þar er ákveðinn og hv. málshefjandi verður að horfast í augu við að hann er staðreynd og ekki fjárheimildir til staðar til að hverfa frá því nema þeirra sé aflað.

Engu að síður væri langæskilegast ef bændur og stjórnvöld gætu samið með einhverjum hætti um meðferð málsins og það er vilji af okkar hálfu til að ganga til viðræðna við bændur. Þó er rétt að hafa í huga að vissir hlutir eru loksins farnir að leggjast með okkur í þessum efnum. Þannig hefur t.d. kjarnfóðurverð lækkað frá áramótum, en það náði hámarki í haust, og með styrkingu krónunnar má búast við áframhaldandi lækkun. Kornverð lækkar á heimsmarkaði og náði hámarki á tímabilinu mars til maí 2008 og ef gengi krónunnar styrkist má búast við stóraukinni lækkun þar. Stóraukin innlend kornrækt er að sjálfsögðu einnig jákvæð í þessum efnum því þá koma innlend aðföng í stað innflutnings. Olíuverð er heldur á niðurleið og síðast en ekki síst er verðbólgan tekin að lækka og við væntum öll að vaxtalækkun og þar með minni fjármagnskostnaður sjáist á næstu mánuðum.

Ég get ekki tekið undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að það séu vonbrigði að Bændasamtökin taki þá afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu sem þau gera. Þvert á móti tel ég mjög skiljanlegt að þau komist að þeirri niðurstöðu út frá hagsmunum greinar sinnar.

Varðandi matvælalöggjöfina vísa ég til þess sem ég sagði áður. Það mál er í höndum þingsins og það eina sem ég sagði um það er að sú skuldbinding sem fyrri stjórnvöld lögðu á hendur núverandi stjórnvalda er til staðar og úr henni þarf að vinna. Það sagði ég um það mál.

Varðandi virðisaukaskattinn vil ég svara hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur þannig að ég held (Forseti hringir.) að það fyrirkomulag þurfi að taka til endurskoðunar, þ.e. virðisaukaskattsskil þeirra sem gera upp samkvæmt svonefndri landbúnaðarskrá.

Að lokum varðandi fund (Forseti hringir.) í verðlagsnefnd, þá skal ég kanna hvar þau mál eru á vegi stödd.