136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og verðbréfaviðskipti.

358. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi ekki síður en því fyrra og þessu kannski enn meir vegna þess að hér er um að ræða frumvarp sem eykur gagnsæi í viðskiptum. Það er nú einu sinni þannig að heiðarleiki og gagnsæi er það sem viðskipti byggjast á svona alla jafna. Menn eiga viðskipti hver við annan af því þeir treysta hver öðrum og ef menn ekki treysta hver öðrum eins og er sums staðar í heiminum leiðir það til mikillar tregðu í viðskiptum og líka til þess að menn þurfa að gera mjög viðamikla samninga sem eru óþarfir ef menn eru sanngjarnir og gagnkvæmt traust ríkir.

Ég held að það gagnsæi sem hér er lagt til í Fjármálaeftirlitinu sé mjög mikilvægt og auðvitað hefur manni fundist dálítið mikil dulúð hvíla yfir þeirri eftirlitsstofnun að óþörfu. Vegna þess að ef eitthvað kemur upp á að sjálfsögðu að skýra frá því hvað sé á seyði, þannig að allir geti vitað hvers vegna eitthvað gerðist og hvers vegna eitthvað gerðist ekki.

Ég fagna þessu frumvarpi eins og ég sagði áður og þetta er gott skref í þá átt að auka gagnsæi og trúverðugleika á markaðnum.