136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[15:06]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta er nú dálítið spaugilegt að verða vitni að þeirri umræðu sem hér fer fram þegar sjálfstæðismenn koma hver á fætur öðrum og tala um að það vanti bara kjark og þor og að ekkert sé verið að gera. Það eru ekki margir dagar síðan sjálfstæðismenn voru við völd í landinu og okkur, sem vorum í stjórnarandstöðu — og erum enn, því að ég minni á að Framsóknarflokkurinn er enn þá í stjórnarandstöðu — fannst að ekki hefði tekist að koma málum til framkvæmda í tíð þeirrar ríkisstjórnar, þannig að þetta er dálítill skrípaleikur allt saman.

Mér finnst það toppa allt þegar sjálfstæðismenn koma hver á fætur öðrum og tala um að ekki sé hægt að ljúka við að gera efnahagsreikninga fyrir bankana. Það er m.a. út af því að við höfum engan gjaldmiðil, við höfum ekkert gengi á íslensku krónuna og það gerir okkur erfitt fyrir. Það er eitt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið í veg fyrir í mörg ár — og er nánast hægt að tala um áratugi — að við tækjum hér upp gjaldmiðil sem er nothæfur.