136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:27]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hér var talað um tón þá segi ég: Hv. þingmaður þarf ekkert að senda mér einhvern tón þó að ég hafi efasemdir um þetta mál í heild sinni og þá sérstaklega vinnubrögðin.

Ég held að í hjarta sínu sé hv. þingmaður innilega sammála því að hægt hefði verið að standa betur að þessu, m.a. hefði þurft að skoða þær hugmyndir sem hún er greinilega mjög hrifin af, sænsku leiðina — það er allt annað mál en það sem hér er flutt. Ég tel eðlilegt að við ræðum slíkar útfærslur. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að það er mál sem endilega ætti að skoða líka.

En yfirlýsingarnar sem fylgja þessu máli eru þær að það eigi væntanlega að klárast svona. Eða eru einhverjir möguleikar á að snarbreyta málinu, fara sænsku leiðina? Í því felst mikil leiðbeining um vinnu allsherjarnefndar, sem fer væntanlega yfir málið, ef menn eru tilbúnir að ræða alla aðra möguleika en koma fram í frumvarpinu. Það hlýtur að hafa sitt að segja líka hvað varðar þann tíma sem menn ætla að taka sér í málið — ef í nefndinni á að skoða ýmsar útfærslur á kosningalöggjöfinni samfara umfjöllun um málið.

Miðað við kosningadaginn 25. apríl, sem nú hefur verið boðaður, hlýtur þetta að vera heilmikil stefnumótun fyrir allsherjarnefnd, þ.e. að hún eigi (Forseti hringir.) að fara yfir kosningalöggjöf í hinum ýmsu löndum.