136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[17:05]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og oft áður virðist sannleikurinn ekki vera nærri hv. þingmanni sem hér talaði. Hún talaði hér um tiltekið frumvarp sem hv. viðskiptanefnd var með til meðferðar. Það er alveg rétt að við áttum ágætan fund, við hv. þm. Atli Gíslason, þar sem hann fór yfir málefnin og ræddi um þau atriði sem hann vildi nefna sérstaklega og vara við. Það er rangt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, eins og margt annað sem frá henni kemur, að þáverandi forseti Alþingis hafi ekki brugðist við. Hann brást við, fundaði með formanni nefndarinnar og starfsmönnum þingsins sem unnu á nefndasviði að þessu máli og óskaði eftir því að farið yrði ofan í málið að nýju. Það var niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að þess gerðist ekki þörf vegna þess að á leiðinni væru frekari breytingar á þessum lögum og það væri gert ráð fyrir því að nefndin flytti breytingar á þessari löggjöf sem tryggði þá stöðu sem nauðsynlegt væri að tryggja.

Ég vísa algerlega til föðurhúsanna fullyrðingum og stóryrðum hv. þingmanns í minn garð.