136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í haust, 1. september, hóf ég störf hjá Avinnuþróunarfélagi Suðurlands sem verkefnastjóri. Meðal þeirra verkefna sem ég vann að var uppbygging orkufreks iðnaðar í Þorlákshöfn í Ölfusinu. Mjög áhugavert og spennandi verkefni sem kallast Þjórsársveitir með sveitarfélögum í kringum Þjórsá. Framtíðin virtist mjög björt. Það leit út fyrir að gagnaver kæmi í Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Mjög bjartar vonir voru um að eitt eða tvö stórfyrirtæki hefðu áhuga á að staðsetja sig í Þorlákshöfn. Orkufyrirtæki virtust ekki hafa miklar áhyggjur af því að þeim tækist ekki að fjármagna virkjanir á Hellisheiði og í Þjórsá. Svo hrundu bankarnir og við stöndum frammi fyrir því að eina stóra verkefnið sem virðist vera í bígerð á Íslandi er álverið í Helguvík. Sem dæmi um þetta er að í september sagði Orkuveitan að hún væri með langan lista, ég held að 20–30 fyrirtæki hafi verið búin að leita til hennar og óska eftir því að fara í viðræður um að staðsetja sig á Íslandi og kaupa rafmagn af fyrirtækinu.

Eftir hrunið, þegar forráðamenn Orkuveitunnar fóru í að ræða við þessi fyrirtæki og athuga hversu mikil alvara væri á bak við fyrirætlanirnar, má segja að hún hafi staðið eftir með eitt fyrirtæki sem hafði áhuga á að kaupa rafmagn og það var Norðurál. Gengið var til samninga um að Orkuveitan mundi selja Norðuráli rafmagn til álversins í Helguvík og ef það gengi ekki eftir væri hugsanlegt að nýta það rafmagn í álverinu hjá þeim í stækkun á Grundartanga.

Ein grundvallarforsenda þess að hægt verði að fara í álver í Helguvík, sem ítrekað hefur komið fram hjá Norðuráli, er að gengið verði frá þessum samningi sem við ræðum í kvöld. Strax 17. apríl 2007 impraði Norðurál á því að þeir hefðu áhuga á að gera sambærilegan fjárfestingarsamning og gerður var við þá á Grundartanga og líka á Reyðarfirði. Þeir ítrekuðu síðan beiðnina 8. október 2008 og hlýtur það að vera eitt af því fáa jákvæða sem kom á borð iðnaðarráðuneytisins á þeim tíma, að einhver hefði enn áhuga á því að fjárfesta á Íslandi.

Við í iðnaðarnefnd höfum fengið kynningu á því hvert innihald þessa samnings er og í þeirri kynningu kom mjög skýrt fram að hann væri mjög sambærilegur og fyrri tveir samningar, eins og komið hefur fram hjá bæði hæstv. iðnaðarráðherra og öðrum þingmönnum sem hafa talað hér, og að frávik væru jafnvel minni en lögfest voru í fyrri samningum. Í þessum samningi er verið að tryggja að tekjuskattshlutfallið verði ekki hærra en 15%. Það eru ákveðnar sérreglur varðandi niðurfellingu á gjöldum. Verið er að gefa fyrirtækinu undanþágu frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi og ákveðnar sérreglur eru varðandi stimpilgjöld, einnig varðandi útreikninga á fasteignaskatti, byggingarleyfisgjaldi og skipulagsgjaldi. Svo er undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi og síðan ýmis öryggisákvæði hvað varðar upptöku nýrra skatta.

Í samningnum kemur líka mjög skýrt fram að hann er gerður með fyrirvara um samþykki ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Miðað við það að um er að ræða fyrirtæki sem ætlaði að staðsetja sig samkvæmt byggðakortinu sem var lagt fram hjá Evrópska efnahagssvæðinu á Íslandi — að í lagi væri að veita sérstaka ívilnun til fyrirtækja sem staðsett eru samkvæmt þessu byggðakorti — trúi ég því að ESA muni líta mjög jákvætt á þetta.

Það er líka mjög jákvætt að heyra — af því að álverin hafa verið umdeild, bæði þau sem hafa verið reist á Grundartanga og á Reyðarfirði — að menn telja að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda verulegum neikvæðum óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag. Ég tel þetta hafa mjög jákvæð áhrif á samfélögin, hvort sem við lítum til Suðurnesjanna eða Suðurlands. Í dag eru 1.800 manns atvinnulausir á Suðurnesjum og mér skilst að atvinnuleysi sé hvergi hærra en þar. Ef við horfum til Suðurlandsins er talað um að 1.000 manns séu atvinnulausir þar.

Ástæðan fyrir því að ég nefni sérstaklega þessa hluta af Suðurkjördæmi er að fyrir tveimur dögum, að mig minnir, var sagt frá því í fréttum að forstjóri Hitaveitu Suðurnesja kallaði eftir því að Norðuráli yrði gert kleift að kaupa rafmagn frá Landsvirkjun. Þegar ég var að vinna að þessum verkefnum sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar vorum við mjög bjartsýn því að við sáum fram á að verið væri að fara í Búðarhálsvirkjun og að jafnvel yrði möguleiki á því að hluti af rafmagninu frá virkjununum sem fyrirhugaðar eru í Þjórsá mundu nýtast á svæðinu. Ég veit að Landsvirkjun hefur áhuga á því en þá hlýtur lykilatriðið að vera að farið verði í þessar virkjanir. Við notum náttúrlega ekki rafmagn nema það sé framleitt.

Álverið í Straumsvík virðist eitthvað vera að hiksta á þeirri stækkun sem fyrirhuguð er þar þannig að ég tel að við hljótum að skoða hvort mögulegt sé að Landsvirkjun selji Norðuráli rafmagn til að tryggja að hægt sé að fara í gegnum þessa áfanga sem þeir eru að tala um — þeir eru að tala um að byggja álverið upp í fjórum áföngum upp í 360 þús. tonn. Forstjóri Hitaveitunnar sagði að innan þessa tímaramma, eins og fyrirtæki leggja bygginguna upp, væri hann ekki fullviss um að Hitaveita Suðurnesja eða Orkuveitan geti tryggt rafmagn. Það væri hins vegar hægt ef Landsvirkjun væri tilbúin til að selja fyrirtækinu rafmagn. Það mundi þá líka þýða að verið væri að fara í umfangsmiklar framkvæmdir á Suðurlandi og þeir 1.000 einstaklingar sem eru nú atvinnulausir á Suðurlandi fengju þá hugsanlega vinnu.

Í greinargerðinni kemur líka fram að áætlað er að á tímabilinu 2009–2016 muni landsframleiðsla aukast um 750 milljarða kr. að nafnvirði komi til framkvæmdanna. Í þeirri upphæð er að vísu gert ráð fyrir að einnig verði farið í framkvæmdina í Straumsvík sem eitthvert hikst virðist vera á. Einnig er talað um að framkvæmdirnar muni auka hagvöxt um rúm 2 prósentustig, sem mun sannarlega ekki veita af, eins og staðan er núna, og að auki er talað um að draga muni úr atvinnuleysi um rúm 0,5 prósentustig. Þegar horft er til þessa skiptir þetta verkefni geysilega miklu máli. Á árunum 2010–2015 er áætlað að 800–1.200 manns verði að störfum við byggingu álversins og fjöldinn muni síðan ná hámarki á árinu 2011 þegar 1.200–1.500 manns verði við störf þannig að allt að 2.500–3.000 manns verði við störf í verkefnum tengdum byggingu álversins í Helguvík.

Það hefur oft komið fram í orðum þeirra sem hafa verið mjög gagnrýnir á álversframkvæmdir að það hljóti að vera möguleiki á því að gera eitthvað annað. Þá mundi ég gjarnan vilja benda á það að í tilviki þeirra sveitarfélaga sem eru á Suðurnesjunum er hægt að segja að sveitarstjórnarmenn þar og íbúarnir hafi svo sannarlega verið að reyna að gera eitthvað annað og þeir hafa komið að fjöldamörgum öðrum verkefnum. Þeir hafa verið að reyna að byggja upp háskólasamfélag á Keflavíkurflugvelli. Þeir eru með hugmyndir í sambandi við heilsufélag, þeir hafa lagt mikla vinnu í að byggja upp ferðaþjónustu og brugðust á mjög kjarkmikinn og bjartsýnan hátt við mjög miklu áfalli þegar varnarliðið fór. Það er tvímælalaust hægt að segja að þeir hafi verið að reyna að gera eitthvað annað en þeir hafa samhliða því horft til uppbyggingar á stóriðju í Helguvík og hafa lagt mikla fjármuni í það.

Það má líka benda á að Norðurál hefur þegar lagt umtalsverða fjármuni í verkefnið. Mér skilst að þegar sé búið að leggja á annan tug milljarða í Helguvíkurverkefnið. Það er því mjög mikil alvara á bak við það hjá þessu fyrirtæki að fara í þessa framkvæmd. Þeir horfa líka til þess að brýnt er að skipta þessu verkefni upp í þá fjóra áfanga sem ég nefndi og hæstv. iðnaðarráðherra líka. Þetta verða þá minni bitar og fjármögnun er einfaldari. En til þess að hægt sé að ganga frá fjármögnun þá er þessi fjárfestingarsamningur algert lykilatriði og ekki bara fyrir fyrirtækið sjálft heldur líka lykilatriði fyrir orkufyrirtækin því að þau eiga sum eftir að tryggja sér fjármögnun til að fara í nauðsynlegar framkvæmdir hjá sér.

Ég er mjög ánægð yfir að þessi samningur skuli vera kominn inn í þingið. Ég tek undir orð hv. þm. Árna Mathiesens. Ég hefði viljað sjá samninginn koma inn enn fyrr og ég var mjög hissa þegar ég sá í fjölmiðlum að hæstv. umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, lýsti því yfir að hún styðji ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um byggingu og rekstur álvers í Helguvík, enda hefur hún væntanlega hugsað sér að það fólk sem er atvinnulaust á Suðurnesjunum og Suðurlandinu geri eitthvað annað.

Ég fagna því að frumvarpið skuli vera komið fram. Ég hlakka til að vinna með málið í iðnaðarnefnd. Ég er fullviss um að við munum vinna þetta hratt og vel.