136. löggjafarþing — 101. fundur,  12. mars 2009.

útboð í vegagerð.

[10:43]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, að árið 2009 verður annað mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar í vegamálum, það mesta var í fyrra. Við skulum hafa það í huga, að í gangi eru verksamningar og verk sem taka til sín í kringum 15 milljarða kr. Við getum boðið út ný verk fyrir allt að 6 milljarða, vorum því miður skorin niður um verk fyrir 6 milljarða. Útboðsferillinn er því byrjaður eins og hv. fyrirspyrjandi gat líka um, það eru tvö verk sem hafa verið — fjögur verk í raun og veru þar sem tilboð hafa verið opnuð og samningar eru í gangi og nokkur fleiri verk eru að koma inn til útboðs.

Það verður líka að hafa í huga að heildarfjárveiting til vegamála liggur fyrir í fjárlögum eins og ég gat hér um áðan en þróun verðlags getur haft töluverð áhrif á þau verk sem þegar eru í gangi og þar með það rými sem við höfum til útboða eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda — niðurstöður úr útboðunum, ef við höldum áfram að fá 60% tilboð er það gott og þá verður meira svigrúm til verka.

Ýmis verk eru að detta inn núna. Ég nefni t.d. Bræðratunguveg með brú yfir Hvítá, það verk er við það að detta í útboð. Álftanesvegur er í útboðsferli, tilboð verða opnuð þar 7. apríl með miklum framkvæmdum. Útboð er í gangi með Reykjavíkurborg sem eru gatnamót Flugvallarvegar og Bústaðavegar og síðan eru ýmis önnur verk að detta inn eins og ég sagði áðan.

Ef ég fer yfir Suðurkjördæmið eru það Suðurstrandarvegur og Suðurlandsvegur, við munum vonandi tilkynna í næstu viku hvað við ætlum að gera þar. Hringvegur í Mosfellsbæ er í hönnun og fer þar með í útboð, vonandi á þessu ári. Arnarnesvegur og síðast en ekki síst, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) bætt umferðarflæði og almenningssamgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu sem ég kem kannski betur að í seinna svari mínu.