136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:15]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra, núverandi þingmaður Sturla Böðvarsson, skuli koma hér og þenja sig mikið út af háhraðatengingunum. Það er gott til þess að vita. Ég var einn af þeim þingmönnum ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni sem töluðum mikið um þetta og gagnrýndum seinaganginn sem var hjá síðustu ríkisstjórn. Menn skulu líta sér aðeins nær þegar þeir koma hér og þenja sig hér mikið út af svona dæmi.

Það var mjög margt óklárt varðandi útboð háhraðatenginga þegar ég kom í samgönguráðuneytið. Það skulum við hafa alveg á hreinu og það var það sem tafði. Það þurfti á vegum Fjarskiptasjóðs að fara um allt landið vegna þess að það var ekki búið að gera það og hnita hvern einasta bæ og skrifa sveitarfélögum og fá staðfestingu á hvort þar væri búskapur eða annað. Maður, líttu þér nær, segir máltækið.

Þess vegna er dálítið undarlegt af hv. þingmanni, fyrrverandi ráðherra samgöngumála, að koma hér og þenja sig á þann hátt sem hann gerir og gagnrýna það sem gert hefur verið. Það hefur verið unnið stórátak í þessu máli síðustu tvö ár við allan þann undirbúning sem þurfti að vinna.

Það voru símafyrirtækin sem óskuðu eftir lengri tilboðsfresti, illu heilli, sem við veittum og síðan kom efnahagshrunið og tafði þetta allt saman. Virðulegi forseti. Til mín hefur komið forstjóri Símans fimm sinnum í þeim tilgangi að tilkynna mér að ekki væri hægt að standa við þetta tilboð en alltaf tókst okkur að blása lífi í það. Við skulum líka rifja það upp, virðulegi forseti, að í tíð síðustu ríkisstjórnar, við 2. umr. fjárlaga, var peningur til háhraðanettenginganna og Fjarskiptasjóðs settur út, en það tókst á síðustu stundu fyrir 3. umr. að koma þeim peningum inn aftur með því að taka þann pening, 250 milljónir, sem átti að fara til sveitarfélaganna vegna þorskaflaniðurskurðar. Það hefur því ekki verið neitt sérstaklega auðvelt síðustu mánuði að koma (Forseti hringir.) þessu í gang. Ég verð að vísa því til föðurhúsanna, virðulegur forseti, því ójafnvægi (Forseti hringir.) sem er í hv. þm. Sturlu Böðvarssyni (Forseti hringir.) út af þessu verkefni. Ég held að hann ætti frekar að gleðjast yfir (Forseti hringir.) að þetta verk hafi klárast.