136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:24]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er lægð yfir landinu eða hvað er að ske, eins og stundum var sagt á Næturvaktinni, en ástæða þess að ég gat um háhraðanettengingarnar í ræðu minni er að talað var um ákveðnar aðgerðir á vegum Bjargráðasjóðs sem eru nýstárlegar og nýjar. Það er settur fram styrkur til áburðarkaupa fyrir bændur og að ég nefni háhraðatengingarnar í því sambandi er vegna þess að bændur hafa beðið mjög lengi eftir þessu. Það er mjög merkilegt, virðulegur forseti, það jákvæða skref sem stigið var með samningnum um háhraðanettengingarnar og allt það sem því fylgir, það mikla átak sem hefur verið í gangi hefur ekkert sérstaklega mikið ratað inn til fjölmiðla, til að boða þau gleðilegu tíðindi fyrir þá sem eiga að njóta þess á næstunni.

Mér finnst mjög merkilegt, virðulegur forseti, að t.d. fjölmiðlar hafa ekki fjallað mikið um þetta og borið þessi tíðindi. Ég orðaði það við einn fjölmiðlamann (Gripið fram í.) að e.t.v. væru fréttirnar of jákvæðar inn í það neikvæða raus sem fyllir yfirleitt alla fréttatíma. Þess vegna gat ég um þetta hér. En ég verð að segja alveg eins og er að mér kemur mjög á óvart hvað hv. tveir þingmenn sem hér eru í andsvari við mig um Bjargráðasjóð og um þetta, skuli ekki bara hreinlega koma og fagna þessu, að þetta skuli loksins hafa tekist. Ég ætla ekki að lengja umræðuna meira um hvað það var sem tafði þetta verk, ég er búinn að rekja það í megindráttum. Það eru nokkur atriði fleiri sem mætti nefna sem hafa tafið en aðalatriðið er það, og það held ég að sé fagnaðarefni fyrir alla, að þetta er loksins í höfn og hefur tekist og verður unnið ekki lengur en á næstu 18 mánuðum.