136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[11:50]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Málið um Bjargráðasjóð er, eins og komið hefur fram, hið besta mál og mikil samstaða er um það. Það er með nokkuð öðrum hætti en var fyrir ári síðan þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lagði fram frumvarp um að leggja hann alveg niður.

Bjargráðasjóður er hluti af því félagslega samtryggingarkerfi sem byggt var upp fyrir allmörgum árum til þess að taka með sameiginlegum hætti á erfiðleikum sem upp geta komið m.a. í tengslum við náttúruhamfarir, uppskerubresti, hafís o.fl. sem getur komið misjafnlega niður á einstökum byggðarlögum, sveitum og bændum, á afkomu þeirra og framleiðslu. Eins og fram kemur í greinargerðinni var Bjargráðasjóður stofnaður með lögum 1913 í þeim tilgangi að koma til hjálpar landsmönnum í hallæri eða til að afstýra hallæri. Í 1. gr. laganna var hallæri skilgreint þannig að sveitarfélag verði svo illa statt að það megni ekki af eigin rammleik að forða mönnum og skepnum frá harðrétti sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir matvæla- og fæðuöryggi í landinu og fyrir afkomu íbúa í heilum landshlutum.

Bjargráðasjóður hefur gegnt mikilvægu hlutverki í þeirri félagslegu samhjálp og samtryggingarkerfi sem þjóðin byggði upp á síðustu öld og var hinn öflugi bakstuðningur fyrir allar framfarir í landinu sem byggðist fyrst og fremst á félagslegum styrk.

Því miður var gengið á hvert félagslega samtryggingarkerfið á fætur öðru í kjölfar einkavæðingar og taumlausrar markaðshyggju ríkisstjórna síðustu ára undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Lánasjóður landbúnaðarins, sem hafði gegnt mikilvægu hlutverki fyrir íslenskan landbúnað við að jafna möguleika bænda til uppbyggingar á jörðum, var lagður niður í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Nú vildu menn gjarnan hafa Lánasjóð landbúnaðarins og geta beitt honum til þess að jafna og styrkja og koma til móts við erfiða greiðslustöðu bænda víða um land. Því miður fór það svo að ríkisstjórnin, undir forustu Sjálfstæðisflokksins með stuðningi Framsóknarflokksins, lagði niður Lánasjóð landbúnaðarins. Eignir hans voru m.a. lagðar inn í Landsbankann þar sem bændur reyna að eiga samninga um lánakjör sín. Það réttlæti og jöfnunarsjónarmið sem ríkti varðandi lánveitingar Lánasjóðs landbúnaðarins varð gjörsamlega úti þegar lánasjóðurinn fór inn í hina einkavæddu hlutafélagsbanka sem hugsuðu fyrst og fremst um hvernig þeir mættu græða. Félagsleg nálgun í lánamálum og fjárhagslegum fyrirgreiðslum var ekki fyrir hendi þar á bæ.

Það var Bjargráðasjóður sem gegndi þessu félagslega hlutverki. Á hann átti að ráðast fyrir ári síðan, þá kom frumvarp fram um það á Alþingi sem þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lagði fram. Það virtist því ekki vera mikill munur á Framsóknarflokki og Samfylkingu í þeim efnum og átti hreinlega að leggja Bjargráðasjóð niður. Sem betur fer tókst að afstýra því, ekki síst fyrir harða andstöðu Vinstri grænna sem neituðu að samþykkja eða veita áformum brautargengi um að leggja þennan félagslega sjóð niður.

Hér er lagt fram frumvarp um að breyta sjóðinum þannig að hann verði að jöfnu í sameign ríkisins og Bændasamtaka Íslands og fái þá skilgreint hlutverk í að standa að baki landbúnaði, matvælaframleiðslu í landinu og öryggi hennar og er það vel. Ég dreg þó í efa að það sé rétt hjá sveitarfélögunum að vilja draga sig út úr þessum sjóði. Ég þekki það að mörgum minni sveitarfélögum, sérstaklega úti um land, hefur þótt gott að eiga Bjargráðasjóð að bakhjarli. Það má vel vera að hinum stærri sveitarfélögum á þéttbýlissvæðunum finnist það óþarfi en ég veit að minni sveitarfélögunum hefur þótt það gott.

Herra forseti. Þetta mál, að hægt sé að beita hluta af eignum Bjargráðasjóðs til þess að koma til móts við bændur í áburðarkaupum með einum eða öðrum hætti, er mjög mikilvægt og gott innlegg í þá stöðu sem fram undan er hjá bændum til þess að tryggja matvælaframleiðslu í landinu. Málið fer nú til nefndar og ég vona svo sannarlega að það fái hér skjótt og gott brautargengi, eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna, þannig að ákvæði þess geti komist til framkvæmda þegar í vor og verði liður í því að koma til móts við og styrkja stöðu bænda og matvælaframleiðslunnar í landinu og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.