136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

[13:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég er alveg til í að hafa klukkuna í ólagi líka og fá aðeins meiri tíma. Það var reyndar þannig að ég var ekki bókaður í þennan fyrirspurnatíma en hljóp í skarðið af því að aðrir ráðherrar forfölluðust og mér sýnist ekki hafa verið vanþörf á því, því ég er að svara þriðju fyrirspurninni.

Varðandi fjárhagsleg málefni Hvanneyrar skildi fráfarandi ríkisstjórn því miður við það mál afvelta og þegar málefni landbúnaðarskólanna eru skoðuð var þeirri vinnu ekki lokið sem auðvitað hefði átt að fylgja yfirfærslu þeirra frá landbúnaðarráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytisins til að koma traustum grunni undir framtíðarstarfsemi þeirra. Hv. þm. Sturla Böðvarsson, stuðningsmaður fyrrverandi ríkisstjórnar, hittir því svolítið sjálfan sig fyrir þegar hann ber þetta mál upp. Það er hins vegar fullgilt og það er sjálfsagt að svara því.

Nú heyra skólarnir undir menntamálaráðherra og því hefur menntamálaráðherra forræði á þessum hlutum og væri kannski eðlilegra að beina fyrirspurninni þangað en það vill svo til að ég er líka kunnugur málinu, bæði sem fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra, og ég get upplýst hv. þingmann um að það er búið að koma þessu máli í farveg. Nefnd þriggja ráðuneyta hóf störf fyrir nokkrum vikum og er að fara yfir stöðu landbúnaðarskólanna, bæði Hvanneyrar og Hóla. Í báðum tilvikum er við mikla erfiðleika að glíma vegna þess að rekstri þeirra hafði ekki verið komið á hreint ef svo má að orði komast eða lagður traustur grunnur að áframhaldandi starfsemi þeirra. Hún er mikilvæg og það verður auðvitað að leita allra leiða til þess að tryggja að sú mikilvæga starfsemi geti haldið áfram. En um leið þekkjum við þær aðstæður sem við búum við hvað fjárhagsleg skilyrði snertir. Það er ekki þannig að það sé í gilda sjóði að fara til að bæta úr eða borga upp þann skuldahala og þau vandamál sem fráfarandi ríkisstjórn eða ríkisstjórnir og ráðherrar sem báru ábyrgð á þessum málaflokkum skildu eftir sig. En það verður reynt að gera það besta úr þeirri erfiðu stöðu.