136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

ferðaþjónusta á Melrakkasléttu.

378. mál
[14:17]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Svo sannarlega hef ég mikinn áhuga á þessum málum og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir áhuga sinn á málinu líka og með hversu skáldlegum hætti hún lýsir þeim möguleikum sem er að finna fyrir ferðaþjónustu á þessu svæði.

Ég vil segja frá því að á næstunni mun Nýsköpunarmiðstöð opna starfsstöð á Húsavík og þar verður gengið frá ráðningu starfsfólks í næstu viku og það er m.a. meðal helstu verkefna starfsstöðvarinnar að móta klasa ferðaþjónustufyrirtækja í Þingeyjarsýslum og móta stefnu í svæðisbundinni nýsköpun og heilsutengdri ferðaþjónustu.

Ég vil líka nefna það að á grundvelli vaxtarsamnings sem við gerðum við Þingeyinga er nú unnið að stefnumótun í ferðaþjónustu á Norðausturlandi og það má eiginlega segja að það sé í beinu framhaldi af tillögunni sem hv. þingmaður flutti hér á sínum tíma með okkar ágæta fyrrverandi kollega, Halldóri Blöndal. Ég tók þá tillögu svo sannarlega alvarlega, ég tók þátt í umræðu um hana á sínum tíma og lýsti stuðningi við hana, þá í stjórnarandstöðu. Tillagan kom til ríkisstjórnarinnar og ég lagði sérstaka áherslu á einmitt það sem kom fram í þeirri tillögu, þar sem m.a. hluti tillögunnar var að ráðinn yrði sérstakur starfsmaður til að byggja upp ferðaþjónustu á grundvelli fuglaskoðunar á Melrakkasléttu, sem einmitt í tillögu hv. þingmanns og Halldórs Blöndals á sínum tíma voru gerð ákaflega góð skil.

Það sem verkefnið snýst um og er núna í vinnu, og alveg gríðarlega góður og efnismikill árangur sem þegar kemur fram í því, er að kortleggja auðlindir ferðaþjónustunnar á svæðinu sem eru auðvitað náttúra og menning og sú grunngerð sem þar er til staðar. Tilgangurinn er sem sagt að skilgreina nýja sýn á ferðaþjónustu en það teljum við að sé forsenda þess að ná bæði hröðum og góðum árangri í þessari grein til að geta boðið upp á vel skilgreindar afurðir og þá skiptir auðvitað höfuðmáli að búa yfir sterkri ímynd.

Ég get glatt hv. þingmann með því að núna vinnur að þessu teymi sérfræðinga sem er með víðtæka alþjóðlega reynslu á sviði ferðamála. Það er líka gaman að segja frá því að að þessu vinnuferli kemur líka námsfólk á svæðinu og þannig má kannski segja að verið sé að byggja upp reynslu hjá nýrri kynslóð. Þær afurðir sem þarna er um að véla eru að hluta til það sem minnst var á í þeirri þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður flutti á sínum tíma með Halldóri Blöndal, þar er t.d. sérstakur fuglastígur og þar er líka vitastígur. Þessi fuglastígur er í reynd verkefni sem felst í því að byggja upp huglægan stíg sem nær frá Langanesi um Melrakkasléttu, fyrir Tjörnes, fram Aðaldal og Reykjadal og að Mývatni. Á þessari leið geta ferðamenn skoðað fugla af öllum gerðum, þarna er bjargfugl, vaðfugl, mófugl og náttúrlega andirnar sem Halldór Blöndal gerði að umræðuefni í ræðum sínum um þetta.

Það er alveg ljóst að Melrakkaslétta gegnir alveg mjög miklu hlutverki í þessu verkefni því að á sléttunni er að finna mjög margar fuglategundir. Þar er t.d. af því að ég gamall sjómaður frá Raufarhöfn, að vísu ekki á Rauðanúp, en þar er einmitt að finna ákaflega gott útsýni yfir súluvarp við Rauðanúp. (Fjmrh.: Nei, Langanesið.) Við Langanesið, segir hæstv. fjármálaráðherra.

Þessu til viðbótar vil ég líka segja frá því að í þessari viku veitti Ferðamálastofa styrki til þriggja verkefna á Melrakkasléttu. Þau eru Gönguleiðir og merkingar vegna vitastígs á Norðausturlandi, Skjálftafélagið á Kópaskeri og Melrakkaslétta – upplýsingar og upplifun. Svo vil ég líka rifja það upp að á sínum tíma þegar fyrrverandi ríkisstjórn veitti styrki til svæða sem urðu illa úti vegna skerðingar á veiðiheimildum hlutu fimm ferðaþjónustuverkefni brautargengi á þessu svæði. Það var Skjálftasetrið á Kópaskeri, Fjölskyldugarðurinn á Þórshöfn, sem hv. þingmaður minntist hér á, lagning göngustíga á Langanesi, þróunarstarf vegna veitingastaðar á Þórshöfn og síðan má ekki gleyma útsýnissiglingum um Bakkaflóa.

Ég tek undir með hv. þingmanni að framtíð ferðaþjónustu á þessu svæði á að geta verið björt. Þar þarf hins vegar að vinna ákveðið þróunarstarf. Hv. þingmaður hefur haft ákveðið frumkvæði að því og ríkisstjórnin, iðnaðarráðuneytið, ferðamálaráðherrann reyna að starfa í þeim anda.