136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

leikskólar og grunnskólar.

390. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Menntamálanefnd fjallaði um þetta frumvarp á milli 2. og 3. umr. fyrst og fremst vegna þess að borist höfðu ýmsar athugasemdir við frumvarpið og því var ástæða til að taka það á dagskrá aftur og fara yfir það. Ég vil nota þetta tækifæri til að fara örlítið yfir þann misskilning sem fram hafði komið vegna þess að hér er eingöngu verið að gera breytingar á leik- og grunnskólalögum til að tryggja að foreldrar sem ekki fara með forsjá barna hafi aðgang að upplýsingum í leik- og grunnskólum eins og barnalög gera ráð fyrir. Það er verið að tryggja samræmi á milli þessara laga.

Hins vegar hafa komið fram óskir um að gengið verði lengra í þessum breytingum, þ.e. að forsjárlausir foreldrar hefðu aðgang að skriflegum upplýsingum en ekki bara munnlegum eins og gert er ráð fyrir eða túlkað er í barnalögum. Það er hins vegar eðlilegt og er mat menntamálanefndar og fleiri að slíkar breytingar eigi að eiga sér stað í barnalögum þannig að það sé fullt samræmi þar á milli. Hér er eingöngu verið að eyða réttaróvissu sem hugsanlega hefði getað komið upp vegna þess að hægt var að skilja leik- og grunnskólalög á annan hátt en barnalög og þess vegna er verið að taka af allan vafa um að forsjárlausir foreldrar hafa sama aðgang að upplýsingum í leik- og grunnskólum og barnalög tryggja þeim gagnvart öðrum stofnunum.

Það er því niðurstaða menntamálanefndar að það frumvarp sem nefndin lagði fram vegna þessara nauðsynlegu breytinga komi hér til 3. umr. óbreytt.