136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[16:47]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (frh.):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera hlé á máli mínu og taka upp þráðinn að nýju þegar hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra er komin í salinn því ég vil beina orðum mínum sérstaklega til hæstv. ráðherra þegar við ræðum þetta mál. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni um málið í gærkvöldi — en þá var hæstv. ráðherra því miður ekki hér — þá er ég ekki með neinn ágreining varðandi þetta mál og ég tel mjög mikilvægt og það hefur komið fram í umræðunum að þess vegna séu þessar umræður mikilvægar, til þess að fá fram þann víðtæka stuðning sem er hér í þingsalnum við það að hinn sérstaki saksóknari fái umræddar heimildir. Það hefur einnig verið upplýst hér — og ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sérstaklega fyrir að hafa unnið í því að upplýsa, skýra og útskýra hvers vegna þetta ákvæði er komið fram sem sérstakt mál í þingið og var ekki hluti af frumvarpinu um sérstakan saksóknara sem ég kynnti og flutti fyrir áramót. Þetta hefur orðið til þess að skýra málið betur, við höfum gefið okkur tíma til að ræða það og ég er viss um að allir þeir sem bera hag þessa embættis fyrir brjósti átta sig á því eftir þessar ítarlegu og gagnlegu umræður að það er fullur stuðningur stjórnmálamanna og þingmanna við það að embættið vaxi og dafni.

Þess vegna var það, miðað við það sem rætt var í gærkvöldi, sérstakt gleðiefni að í dag kynnti hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra á blaðamannafundi þá ákvörðun að fjölga mætti starfsmönnum embættisins úr 4 í 16. Einnig hefur komið fram í fréttum að nú í vikunni sé hinn franski saksóknari Eva Joly væntanleg hingað aftur til skrafs og ráðagerða um framvindu embættisins.

Það sem ég vildi fá tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra um, og þess vegna bað ég sérstaklega um að hæstv. ráðherra yrði viðstödd þegar ég flyt ræðu mína, er hvort hún geti ekki útskýrt betur fyrir okkur hér í þingsalnum hvernig hæstv. ráðherra sér framvindu mála varðandi fjölgun starfsmanna hjá embættinu úr 4 í 16, hvaða samsetning af fólki er fyrirhuguð þar og hvers vegna talan 16 er valin en ekki einhver önnur tala, hvað býr þarna að baki? Ég gat ekki verið viðstaddur fyrri hluta umræðunnar og kannski hefur þetta þegar komið fram, ég veit það ekki, en ég vildi mjög gjarnan að hæstv. ráðherra útskýrði þetta fyrir okkur.

Ef ég reikna rétt er væntanlega líka verið að tala um með þessu að hækka fjárveitingar til embættisins úr 50 milljónum í 200 milljónir á ári, ef ég átta mig á þeim stærðum sem um er að ræða. Þetta er kannski ekki alveg svona há upphæð, líklega var hluti upphæðarinnar, þ.e. 50 milljónanna, stofnkostnaður, ég veit það ekki. Það væri fróðlegt að vita hvort samráð hefur verið haft við þingmenn úr fjárlaganefnd um þetta, eins og eðlilegt er, eða hvernig sú ákvörðun var tekin að auka fjárveitingar með þessum hætti.

Mig langar einnig að vita hvaða áform eru um samstarf við hinn sérstaka franska ráðgjafa um framvindu málsins. Ég tel að það sé til þess fallið að styrkja embættið enn frekar í sessi að hæstv. dómsmálaráðherra upplýsi um þessa þætti og það eigi ekki að leggja það á hinn sérstaka saksóknara að þurfa að sitja og svara spurningum fjölmiðlamanna um starfsumhverfi sitt og mál af þessu tagi. Að mínu mati er mjög brýnt að búa þannig um hnútana að hinn sérstaki saksóknari geti sinnt störfum sínum af öryggi án þess að fjölmiðlamenn séu í sjálfu sér að skipta sér af því og krefja hann svara um það hvort hann ætli að gera þetta eða hitt eða hvort starfsmennirnir séu 4 eða 16. Hið pólitíska umhverfi ætti að skapa honum það öryggi sem þarf til þess að hann geti sinnt störfum sínum. Frumvarpið sem hér er til umræðu gerir það, með því er verið að veita honum meiri heimildir en áður.

Eins og ég sagði í ræðu minni í gær tel ég mjög ómaklega að hinum sérstaka saksóknara vegið þegar gefið er til kynna að vegna þess að hann hafi verið sýslumaður á Akranesi sé hann verr til þess fallinn en einhverjir aðrir að sinna verkefnum af þessu tagi. Ég tel því fulla ástæðu til þess að skapa þann múr af trausti í kringum embættið að öruggt sé að það geti siglt áfram á þann veg sem við allir þingmenn væntum og sem við væntum enn frekar eftir að búið verður að breyta lögum á þann veg sem hér er verið að gera og einnig þegar ákveðið hefur verið að fjölga starfsmönnum við embættið jafnmikið og raun ber vitni.

Það var þetta sem ég vildi spyrja um. Ég vil í raun og veru líka gefa, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra færi á því hér í salnum að greina frá því hvaða ákvarðanir hafa verið teknar því það er þingið sem hefur skapað þetta embætti með samþykkt þessara sérstöku laga. Það hefur líka komið skýrt fram, og hæstv. ráðherra og við höfum fylgst með umræðum sem hafa verið miklar og efnislegar um þetta mál, að það er eindreginn stuðningur í þinginu við embættið og eindreginn vilji til þess að það geti sinnt störfum sínum.

Ég vil, virðulegi forseti, enn í lok máls míns þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að ljúka því sem mátti skilja sem óupplýst mál í upphafi umræðnanna vegna orðaskipta sem urðu við 1. umr. málsins og draga það fram með þeim hætti sem hún gerði, hvað menn ræddu í aðdraganda frumvarpsins, upphaflega, og hvaða sjónarmið voru uppi milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins annars vegar og viðskiptaráðuneytisins hins vegar.