136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[20:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður ekki skilja það sem ég átti við. Menn byrja á því að niðurgreiða rafhitun og vegna þess að það er ekkert sem getur keppt við það í rauninni, hitaveita eða annað slíkt, þá fara menn að niðurgreiða hitaveiturnar í samkeppni við þessa niðurgreiddu raforku í staðinn fyrir að borga bara búsetustyrki, deila þeim 1.000 milljónum sem veittar eru í þetta á ári út til þeirra sem njóta þeirra í dag í krónutölu eftir íbúafjölda á svæðum, og leyfa svo fólkinu sjálfu að ráða, þ.e. að borga raforku sína að fullu og ráða því hvort það fer út í hitaveituframkvæmdir vegna þess að þá eru þær orðnar samkeppnishæfar. Það geta líka verið til aðrar leiðir, t.d. að nota rekavið, fjarhitun eða annað slíkt, þ.e. menn mundu nota þá orkugjafa sem eru á staðnum. En allt þetta sofnar því það getur ekki keppt við niðurgreiðsluna.

Verið er að búa til vandamál á einum stað en leysa þau síðan með meiri fjárveitingum á hinum staðnum, í stað þess að láta bara venjulega mannlega skynsemi ráða. Láta menn borga fyrir raforkuna það sem hún kostar og ef það er of dýrt fyrir íbúana þá finna þeir sjálfir leiðir með fjarvarmaveitu, hitaveitu eða einhverju öðru í staðinn fyrir að vera að styrkja hvort tveggja.

Ég held að menn ættu að fara að skoða þetta og iðnaðarnefnd ætti virkilega að skoða hvort ætti ekki að setja þessar 1.000 milljónir, sem þjóðin á ekkert allt of mikið af núna, í búsetustyrki á þessum svæðum.