136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef hv. þingmaður skoðar fylgiskjal með frumvarpinu fái hún svör við þeim spurningum. Það er fylgiskjal frá fjármálaráðuneytinu og fjárlagaskrifstofunni og þar er farið yfir markmið frumvarpsins og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem gera ráð fyrir að afnema takmörkun á hámarki niðurgreiðslna vegna raforkunotkunar á varmadælur til húshitunarkostnaðar, gera mögulegt að styrkja breytta orkuöflun til húshitunar og styrkja endurbætur á íbúðarhúsnæði á köldum svæðum. Til að mæta kostnaði vegna þessa er lagt til að 3% af því fé sem ákveðið er í fjárlögum til niðurgreiðslna á kostnaði við húshitun og til styrkja til nýrra hitaveitna verði veitt til orkusparnaðaraðgerða í stað 1% eins og er í gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að verði hlutfall þetta hækkað muni framlögum til verkefna innan fjárlagaliðar 11-373, niðurgreiðslur á húshitun, verða forgangsraðað á þann veg að minna fé fari í stofnstyrki til nýrra hitaveitna og jarðhitaleitar auk þess sem verkefni um hagkvæmniúttekt á varmadælum og smávirkjunum er lokið.“

Hér er um breytta forgangsröðun að ræða. Nú er þessum stærri verkefnum, þar sem farið er úr rafhitun yfir í hitaveitur, að ljúka og menn sjá fyrir endann á þeim. Því er verið að breyta áherslunum og setja þessa fjármuni í auknum mæli til köldustu og strjálbýlustu svæðanna, þar sem slíkt er ekki gerlegt, til að menn beiti þar í auknum mæli orkusparandi aðgerðum. Svarið er að finna hér og ég tel það vera skýrt, þetta mun ekki hafa áhrif á niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði til þeirra sem njóta þeirra styrkja í dag.