136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

raforkulög.

398. mál
[23:40]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er dapurlegt að sjá að forustumaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins virðist lifa á allt annarri plánetu en aðrir Íslendingar. Veit hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir ekki að Íslendingar eru í einhverri dýpstu kreppu sem á fjörur þeirra hefur rekið? (ArnbS: ... Sjálfstæðisflokksins.) Það varðar hag og afkomu hvers einasta fyrirtækis á Íslandi, ekki síst þeirra sem þurfa að endurfjármagna sig og semja um lán á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Það gildir um orkufyrirtækin.

Það að koma hingað og ganga erinda eins tiltekins fyrirtækis, eins og hv. þingmaður gerir, og segja að tillaga um að fresta tilteknum gerningi um sex mánuði ríði einhvern baggamun um framtíð Orkusölunnar, er bara vitleysa. Það er ekki bara mitt mat að það sé vitleysa, það er líka mat þeirra hv. þingmanna sjálfstæðismanna sem sitja í iðnaðarnefnd, hafa farið yfir þessi mál og komist að því að fullkomlega réttmæt rök liggi til grundvallar því að samþykkja þessa tillögu. Menn geta svo haft aðrar skoðanir á því en menn geta hins vegar ekki komið hingað, eins og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins gerir, og talað með þeim hætti að það getur beinlínis skaðað orðstír eins af helstu orkufyrirtækjum Íslendinga.

Orkuveita Reykjavíkur hefur, að mínu viti, verið í fararbroddi á heimsvísu við þróun jarðhitanýtingar og nýtur álits en Orkuveita Reykjavíkur hefur, alveg eins og önnur orkufyrirtæki, lent í kröppum dansi varðandi endurfjármögnun. Það kemur skýrt fram í framsöguræðu minni að af þeim sökum sé verið að létta undir með fyrirtækinu og reyndar öðrum fyrirtækjum í svipaðri stöðu. Það er einungis verið að tala um sex mánuði þannig að það getur nú ekki riðið baggamuninn varðandi samkeppni á orkumarkaði. Það er fráleitt að halda því fram.

Varðandi Helguvík þá veit ég ekki um neitt sem varðar orkuframleiðslu (Forseti hringir.) hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem getur dregið það mál. Ég held að aðrir hlutir (Forseti hringir.) gætu komið (Forseti hringir.) upp á en varla það.