136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[01:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú hef ég miklar áhyggjur af þessu máli og af því hvað liðið er á nótt og af því hve fáir eru í þingsal. Við ræðum hér afskaplega flókið mál og afskaplega stórt mál og þessi mál, eins og ég kem inn á í ræðu minni á eftir, eru bæði oftrygging og vantrygging. Á vissan hátt eru bótaþegarnir hlunnfarnir og á vissan hátt eru þeir oftryggðir.

Nú veit ég ekki hvað nefndin hefur kannað málin vel og það fylgir því að sjálfsögðu mikil ábyrgð þegar nefndir fara að flytja mál að þær leiti mjög vandlega umsagna allra aðila sem um málið geta fjallað og koma til með að framkvæma það. Ég ætla því að spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi örugglega verið leitað til Félags tryggingafræðinga til þess að fara yfir þann þáttinn, hvort ekki hafi örugglega verið leitað til tryggingafélaga sem greiða út þetta tjón og hvort ekki hafi örugglega verið leitað til sjúklingasamtaka og annarra slíkra sem eru hinum megin. Það að nefndir fari að flytja frumvörp veltir ákveðinni ábyrgð yfir á nefndirnar á því að frumvörpin séu vel unnin. Það er það sem veldur mér dálitlum áhyggjum, herra forseti, að hér er verið að ræða þetta þunga, erfiða og flókna mál klukkan 25 mínútur í tvö að nóttu.