136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

tillögur Norðausturnefndar.

384. mál
[14:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Um mitt sumar fól fyrrverandi forsætisráðherra Norðausturnefndinni að fylgja tillögum eftir gagnvart viðkomandi ráðuneytum. Tillögurnar voru misjafnlega vel útfærðar og undirbúningur verkefna mislangt á veg kominn. Ríkisstjórnin sá til þess að fjármunir til einstakra verkefna yrðu færðir inn í frumvarp til fjáraukalaga 2008 og í frumvarp til fjárlaga árið 2009. Gert var ráð fyrir 100 millj. kr. í hvoru frumvarpi fyrir sig til að mæta tillögum sem settar eru fram í skýrslu nefndarinnar. Jafnframt var fulltrúum frá forsætis-, fjármála-, iðnaðar- og menntamálaráðuneyti falið að gera tillögur um útfærslu þeirra fjárhæða í einstök verkefni.

Upphaflega var samkvæmt skýrslu nefndarinnar gert ráð fyrir 17 afmörkuðum verkefnum og fullyrða má hér að öll nema eitt verði að veruleika. Mörg verkefni eru komin á fullan skrið. Má þar fyrst nefna stofnun starfsstöðvar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fyrir Þingeyjarsýslu á Húsavík og á Austurlandi. Hvort tveggja er nú í fullum undirbúningi ásamt svæðisbundinni nýsköpun í tengslum við starfsstöðvar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Unnið er að ráðningu fimm sérfræðinga og mun starfsemin hefjast fyrri hluta árs 2009. Einnig má nefna að skrifað hefur verið undir samning við Langanesbyggð sem tekur að sér rekstur Þórshafnarflugvallar og verður einn starfsmaður ráðinn vegna verkefnisins.

Drög að samkomulagi liggja nú fyrir hjá menntamálaráðuneytinu um fornleifa- og sagnagarð í Þingeyjarsveit til að efla rannsóknir, menningu og fræðslu innan Þingeyjarsveitar og utan. Verður starfsmaður í hálfu starfi í tengslum við það verkefni. Verið er að auglýsa laust til umsóknar starf sérfræðings við rannsóknar- og vísindasetur við Mývatn. Gert hefur verið ráð fyrir að viðkomandi hefji störf í byrjun júní á þessu ári. Þá hefur Náttúrustofa Norðausturlands ráðið sérfræðing til að sjá um vöktun fuglalífs í Þingeyjarsýslum.

Þá er nú á fullri ferð undirbúningur stofnunar mennta-, menningar- og nýsköpunarseturs á Vopnafirði. Setrið skal hafa umsjón með námskeiðum, fjarnámi og stuðningi við rannsóknarstarf á svæðinu, umsjón með menningartengdum þróunarverkefnum og stuðningi við frumkvöðla og atvinnuþróun á svæðinu. Undirbúningur að verkefninu er þegar hafinn og verður ráðið í eitt og hálft stöðugildi verkefnastjóra setursins. Gert er ráð fyrir 8 millj. kr. fjárframlagi til verkefnisins. Þá er gert ráð fyrir framlagi til skrifstofu menningar- og ferðaþjónustu, Tækniminjasafns Austurlands, Skaftafells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi og miðstöðvar menningarfræða á Austurlandi með samstarf stofnananna að leiðarljósi. Nú er verið að undirbúa ráðningu starfsmanns á Seyðisfirði til að sinna verkefninu og er fjárframlag til verkefnisins 8 millj. kr. Þá hefur þegar verið opnað á Breiðdalsvík safn og fræðasetur tileinkað breska jarðfræðingnum George Walkers til að efla jarðfræðirannsóknir og tryggja rekstrargrundvöll jarðfræðisetursins og er fjárframlag til verkefnisins 8 millj. kr.

Loks var lagt til að framhaldsskólanum á Laugum verði falið að skoða möguleika á að nýta kosti fjarkennslu í bland við staðbundið lotunám. Það verkefni er á áætlun og er gert ráð fyrir einum umsjónarmanni í verkefnið og er fjárframlag til verkefnisins 10 millj. kr.

Skýrslan gerir ráð fyrir verulegri fjölgun opinberra starfa og aukinni opinberri þjónustu á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Eins og áður hefur komið fram var upphaflega samkvæmt skýrslu nefndarinnar gert ráð fyrir 17 afmörkuðum verkefnum og sem fólu í sér 19,5 stöðugildi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytunum er nú unnið að ráðningu í flest störfin. Eins og staðan er nú hefur aðeins eitt verkefni ekki orðið að veruleika en það er efling heilabilunardeildar Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Þetta eru þó jákvæðar fréttir, að fjölgað sé um 15 stöðugildi á ýmsum stöðum og það er von mín og trú að flest þessara verkefna leiði til enn frekari fjölgunar starfa í framtíðinni. Á þeim tímum sem við nú göngum í gegnum ber okkur að róa að því öllum árum að efla sem fjölbreyttust atvinnutækifæri og nýsköpun um land allt þar sem byggt er á íslensku hugviti og sérfræðiþekkingu. Það er jafnframt ánægjulegt við þessi verkefni að þau byggja á sögu landsins og sérkennum, menningu og náttúru okkar sem er einstök.