136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:04]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér fer fram 2. umr. um frumvarp til laga um Bjargráðasjóð. Hv. samgöngunefnd hafði málið til meðferðar og fór rækilega yfir það. Hér er komin niðurstaða sem ég get fallist á í öllum aðalatriðum. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara vegna þess að ég vildi vekja athygli á því að Bjargráðasjóður, sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í áratugi, sérstaklega fyrir íslenskan landbúnað, er með þeim breytingum sem hér á að gera skertur að því leyti að sveitarfélögin greiða ekki lengur inn í sjóðinn. Sú breyting er gerð í samstarfi við sveitarfélögin og í samstarfi við Bændasamtökin.

Hins vegar er alveg ljóst að væntanlega þyrftu fjármunir að aukast til þess að sjóðurinn gæti staðið við þær skuldbindingar sem kunna að skapast, sem maður vonast auðvitað til að ekki verði. En sveitarfélögin hafa greitt verulegan hluta af þeim tekjum sem sjóðurinn hefur haft í gegnum tíðina.

Engu að síður er komið samkomulag um þetta á milli aðila og gert ráð fyrir að þær eignir sem sveitarfélögin í landinu eiga í sjóðnum greiðist til þeirra og þær verði nýttar til þess að kaupa fasteign í höfuðborginni. Það er síðan spurning út af fyrir sig hvort skynsamlegt sé að nýta fjármuni sem safnast hafa upp í slíkum neyðarsjóði með því að setja þá í fasteign. Það verður hins vegar að vera ákvörðun sveitarfélaganna hvort þau gera það og ég geri ekki neinn ágreining um það, þetta er þeirra ákvörðun. En ég vonast svo sannarlega til þess að sveitarfélögin nýti sér þá eign eins vel og kostur er.

Ég vil einnig gera að umtalsefni atriði í bráðabirgðaákvæði IV en þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. er stjórn sjóðsins heimilt á árinu 2009 að ráðstafa fjármunum úr almennri deild sjóðsins til að draga úr hættu á uppskerubresti sem gæti leitt af sér óæskilegan samdrátt í búvöruframleiðslu.

Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um þessa sérstöku ráðstöfun, svo sem um skilyrði fyrir úthlutun og hve hárri fjárhæð skal varið til verkefnisins, en gæta skal þess að greiðslur á þessum grundvelli skerði ekki hlut sveitarfélaga í uppgjöri samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I og II.“

Það kom fram við meðferð málsins í nefndinni af hálfu Bændasamtakanna að þau töldu að æskilegt væri að þetta bráðabirgðaákvæði færi inn í 8. gr. og væri þar með fast sett þar. En það komu ábendingar og í rauninni beiðni frá ráðuneytinu um að svo yrði ekki og á það féllst meiri hluti nefndarinnar. Það var því ekki fallist á óskir og tillögur Bændasamtakanna hvað þetta varðar.

Vonandi mun ekki til þess koma að nýta þurfi fjármuni sjóðsins í þessu skyni og auðvitað óskar maður helst þess að sjóðurinn þurfi sem minnst að gera. En engu að síður kom þess ábending fram frá fulltrúa Bændasamtakanna og ég vildi halda því til haga við umræðuna.

Að öðru leyti tel ég að þetta mál sé af hinu góða og afgreiðsla þess. Það er gert ráð fyrir að málefni sjóðsins gangi til umsýslu hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem ég tel eðlilegra í ljósi þess að sveitarfélögin eru ekki lengur með þetta á sinni könnu. Það er þá alltaf hægt að hringja í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem er ekki að hlusta á umræðuna en er hér í hliðarsal að svara í símann, ef á þarf að halda þegar kemur til úrlausnar hvað þetta varðar.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. En ég vænti þess að þetta frumvarp, sem væntanlega verður að lögum, geti orðið öflug viðspyrna fyrir landbúnaðinn í landinu ef á þarf að halda.