136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gengi krónunnar og efnahagsaðgerðir.

[15:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra. Ég vil í fyrsta lagi kalla eftir því frá hæstv. ráðherra hvort hann kunni sérstaka skýringu á því að nú gefur gengi íslensku krónunnar þó nokkuð eftir sem hlýtur að vera okkur mjög mikið áhyggjuefni, bæði vegna þess að það veldur skuldaaukningu hjá þeim sem skulda í erlendum gjaldeyri, eykur greiðslubyrðina og getur sett verðbólguþrýsting á hagkerfið.

Í öðru lagi spyr ég hvort þess sé að vænta að ríkisstjórnin tefli fram frumvarpi um skattahækkanir eða nýja skatta ef ekki er komið samkomulag milli ríkisstjórnarflokkanna í því efni. Ljóst er að það er eitt af meginmálum hæstv. fjármálaráðherra að auka skattbyrðina enda telur hæstv. ráðherra að það sé líklegasta leiðin til að stoppa í fjárlagagatið.

Í þriðja lagi vil ég kalla eftir því hvort núverandi ríkisstjórn hyggst tefla fram ákveðnum tillögum um hagræðingu og sparnað í ríkisrekstrinum. Öll erum við sammála um að eitt brýnasta verkefni þingsins sé að finna leiðir til að hagræða og spara, endurraða í ríkisrekstrinum þannig að við nýtum fjármuni sem allra best. Koma á þessu þingi einhverjar markverðar tillögur frá ríkisstjórninni í því mikilvæga máli?

Loks vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort við höfum mætt öllum skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um framvindu í ríkisfjármálum, sem nauðsynlegt er að gera til að tryggja áframhaldandi fyrirgreiðslu sjóðsins. Ef svo er ekki, hvað er það þá í framvindu ríkisfjármála sem ekki gengur nægilega vel? (Gripið fram í: Það er að moka flórinn.)