136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þingmaður verði að inna hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmund Jónasson eftir afstöðu hans til þess máls sem hér er á dagskrá. Hann er ekki viðstaddur og er víst erlendis eftir því sem ég best veit. En ég kannast ekki við það að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi greitt atkvæði gegn þessu máli á fyrri stigum.

Hvað varðar niðurgreiðslu kostnaðar fyrir auðhringa sem hv. þingmaður nefndi, þá vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að virðisaukinn af þessari starfsemi er það mikill að hann þrefaldar trúlega, eftir því sem menn sem til þekkja telja, þá niðurfellingu sem hér um ræðir. Þess vegna er eðlilegt að efla þennan iðnað og atvinnusköpun og listsköpun í landinu með þessum hætti. En, herra forseti, það er annað sem skiptir verulega miklu máli og það er að þessi niðurgreiðsla á kostnaði býðst öllum sem uppfylla tiltekin skilyrði. Niðurfelling skatta á álfyrirtæki sérstaklega, og ég tala nú ekki um eitt álfyrirtæki sérstaklega í Helguvík umfram önnur álfyrirtæki og umfram öll önnur iðnfyrirtæki í landinu, er þeirri sem hér stendur ekki að skapi.