136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni en segi að það sé ekki stjórnarskráin heldur íslenska þjóðin sem eigi betra skilið en að farið sé í pólitískan leik með stjórnarskrána.

Við funduðum í fjárlaganefnd í morgun, virðulegi forseti, og ég verð að viðurkenna að ég var ansi vongóður fyrir þann fund. Ég sá í Morgunblaðinu á mánudaginn eins og aðrir að Vinstri grænir, nánar tiltekið fjármálaráðherra sagði:

„Við munum segja þjóðinni það fyrir kosningar sem við teljum óhjákvæmilegt að gera eftir kosningar. Við munum segja þjóðinni frá því.“

Það kom þess vegna spánskt fyrir sjónir að vera í einn eða tvo tíma á opnum fundi í fjárlaganefnd þar sem enn og aftur var haldið aftur af upplýsingum um raunverulega stöðu mála. Það er ekki enn komið fram hvernig menn ætla að framkvæma fjárlög árið 2009. Það er ekki enn komið fram, virðulegi forseti, hvaða upplýsingar menn eru búnir að leggja á borðið fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en treysta sér ekki til að leggja fyrir Alþingi og er þar t.d. vísað til skattamála. Engar upplýsingar eru heldur komnar fram um það hvernig menn eru að vinna fjárlögin fyrir árið 2010.

Það er því augljóst að leikurinn er ekki bara með stjórnarskrána. Hann gengur líka út á það að reyna að halda öllu því leyndu sem hægt er fyrir þinginu og fyrir þjóðinni fram yfir kosningar, og það er gríðarlega alvarlegt og það er þessari ríkisstjórn til vansa. Svo að því sé til haga haldið þá eru menn búnir að fresta sparnaðaraðgerðum og segja ekki frá því hvernig þeir ætla að ná þeim með öðrum hætti. Það er allt í lagi að fresta en (Forseti hringir.) það er enn alvarlegra að menn skuli ekki segja frá því.