136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:07]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka forseta fyrir að gefa mér orðið, sem var reyndar óumbeðið, en það er rétt að vekja athygli á því að þau mál sem hér hafa verið rædd eru þess eðlis að það er nauðsynlegt að þau komist á dagskrá. Ég undrast mjög að hæstv. forseti skuli ekki við þessar aðstæður leita leiða til að við getum rætt þau mikilvægu atvinnumál sem hér eru fyrir á dagskránni. Það er búið að koma fram á mörgum fundum með hæstv. forseta að við sjálfstæðismenn höfum beðið um tvöfaldan ræðutíma. Við munum ræða mjög vandlega um stjórnarskrána vegna þess að við berum stjórnarskrána mjög fyrir brjósti. (SVÓ: Það munu allir …) Þess vegna skiptir miklu máli að hún sé rædd hér mjög vandlega. Þetta var forseta ljóst þegar hann raðaði upp dagskránni og ákvað að taka stjórnarskipunarmálin á undan atvinnumálunum, á undan efnahagsmálunum, á undan skattamálunum, þeim málum sem skipta (Forseti hringir.) hag heimilanna máli.