136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseti hefur gefið ádrátt um að funda með formönnum þingflokka í matarhléinu eins og hér hefur komið fram og ætlar að ganga til dagskrár á meðan. Nú er klukkan orðin 20 mínútur yfir 12 og áætlað matarhlé er klukkan 1. Það er því deginum ljósara að umræðan sem fram fer í millitíðinni verður mjög ómarkviss og sundurleit svo að ekki sé meira sagt.

Ég legg því til, eins og fleiri félagar mínir hafa gert hér, að fundurinn verði haldinn nú þegar — að hæstv. forseti geri hlé á þessum þingfundi og haldi formannafund nú þegar til þess að koma skikki á þetta. Í anda þess að við sjálfstæðismenn erum alltaf tilbúnir að hugsa í lausnum og greiða fyrir þingstörfum þá er líka annar möguleiki í stöðunni og það er að flýta matarhléinu og taka það núna þannig (Forseti hringir.) að hægt sé (Gripið fram í: Góð hugmynd.) að hafa dagskrána svolítið betri.