136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það undrar mig töluvert að hæstv. forseti vilji ekki svara þeim spurningum sem til hans er beint, að hann vilji ekki segja frá þeim áformum sem hann hefur um framgang þinghalds í kvöld. Vill hann ekki með neinu móti taka tillit til þess að hér er mjög þung umræða á ferðinni? Það er ekki einungis það, heldur var þetta með nákvæmlega sama hætti við 1. umr. um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Boðið var upp á næturfundi, að þetta mál yrði rætt í skjóli nætur, og nú erum við fjórðu nóttina í röð að tala á þinginu.

Yfirleitt er það svo að flutningsmenn frumvarpsins — reyndar situr hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir í salnum og fylgist með umræðunni, en það er fátt um fína drætti hvað aðra varðar. (Gripið fram í: Nú?) Og þeir sem upphaflega lögðu málið fram hafa vart látið sjá sig hér í dag og það var nákvæmlega eins við 1. umr. (BJJ: Heyrðu. Ég er búinn að vera hérna í dag …) Það gleður mig að sjá þig hérna, hv. þingmaður. (Gripið fram í: … frekar lítið.) Háreysti í þingsal. (ÞKG: Þú ert duglegur strákur.)