136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:18]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er fullt tilefni til þess að hafa miklar áhyggjur af fjármálum íslenska ríkisins á komandi ári og það sem eftir er af þessu. Eins og nú horfir með atvinnuleysi eru allar líkur á því að Atvinnuleysistryggingasjóður verði tómur þegar kemur fram í septembermánuð og þá verði að taka þær greiðslur sem þarf til með óbreyttu atvinnuleysi, 2–3 milljarða á mánuði, beint af fjárlögum, beint úr ríkiskassanum. Ekki léttir það vandann, hæstv. forseti.

Við vitum að við þurfum að beita aðhaldi en við skulum líka gera okkur grein fyrir því að við gerð fjárlaga fyrir næsta ár verður ekki auðvelt að skera niður upphæð sem fer yfir 30 milljarða. Ég tel að raunhæft sé að hugsa eitthvað á þeim nótum að hægt sé að nálgast þá tölu en það kostar líka fórnir. Við náum ekki að brúa bilið með niðurskurði, það er algjörlega útilokað. Það sem við þurfum að gera, hæstv. forseti, er að mínu viti að auka tekjurnar í þjóðfélaginu almennt og vinna gegn atvinnuleysinu. Það gerum við auðvitað ekki nema við tökum róttækar ákvarðanir í því að reyna að auka hér atvinnu og við þurfum að gera það strax, við þurfum að láta það virka á þessu ári. Í spám er gert ráð fyrir 10% atvinnuleysi á næsta ári og eitthvað svipuðu á þessu ári þegar líður á árið. Þessari þróun verðum við að snúa við. Við munum ekki ráða við þetta dæmi ef við ekki náum að auka atvinnu og fá þar af leiðandi meiri tekjur til ríkisins. Tekjur ríkisins sveiflast á milli ára um 50, 60 milljarða, þ.e. frá árinu í fyrra og til ársins í ár, og eru núna í fjárlögum 402 milljarðar. Upplýsingar liggja fyrir um að það stenst ekki. Tekjurnar verða sennilega 380 milljarðar á þessu ári en ekki 402.

Vandamálið er því gífurlegt og það verður ekki brugðist við því af neinu viti nema með því auka atvinnu í landinu. Til þess þurfa menn að grípa til þeirra ráða sem tiltæk eru, hvort sem þau eru á sjó eða landi. Það þýðir ekkert væl um það hvar við ætlum að finna atvinnuna. Við verðum bara að finna þá atvinnu sem við mögulega getum farið í til að reyna að rífa okkur upp úr því ástandi að hér keyri ekki allt áfram niður, reyna að stöðva atvinnuleysið, búa til nýjar tekjur, fá nýjar tekjur til ríkisins. Þannig getum við unnið á þessu dæmi. Við munum hvorki leysa það með skattahækkunum einum né niðurskurði einum. (Forseti hringir.) Það er atvinnustigið sem við verðum að snúa okkur að.