136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:55]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að leiðrétta það sem fram kom í máli hv. þingmanns um að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sérnefnd um stjórnarskrármál hafi lagt fram breytingartillögur í nefndinni. Það gerðist ekki. Þær breytingartillögur sem hér hafa komið fram eru hins vegar að stórum hluta í átt til þess málflutnings sem viðkomandi hv. þingmenn höfðu uppi í nefndinni. Menn geta síðan deilt um það hvort nægjanlega stór skref séu stigin í þá átt.

Hv. þingmaður var mjög upptekinn af sáttinni og ég get tekið undir það. Það er mikilvægt að mál séu afgreidd í sátt og þeim mun stærri sem þau eru þeim mun betri þarf sáttin að vera. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji möguleika á því að kveða á um að náttúruauðlindir skuli vera í þjóðareign, hvort hægt sé að ná sátt um það við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér á þingi að náttúruauðlindir skuli vera í þjóðareign að teknu tilliti til einkaeignarréttar. Telur hv. þingmaður þann möguleika vera til staðar, virðulegi forseti, að ná megi sátt við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hér á hinu háa Alþingi um þetta ákvæði?