136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég flutti ræðu um þetta leyti fyrir nokkrum dögum og ræddi hugmyndir mínar um stjórnarskrá, ég er hræddur um að afskaplega fáir hafi tekið eftir því. Ég gæti farið þá leið, herra forseti, að senda öllum þingmönnum þessa ræðu mína, eða link á hana, þannig að menn geti athugað hvaða hugmyndir ég hef um stjórnarskrá.

Ég hef töluvert byltingarkenndar hugmyndir um stjórnarskrá og lít þannig á að stjórnarskráin sé fyrst og fremst heimspeki, eigi að fjalla um mannréttindi og eiginlega ekkert annað. Mér finnst — ég gat þess ekki þá en ég get bætt því við núna — margir sem um þetta fjalla, það eru oft á tíðum lögfræðingar, frú forseti, vilja gæða stjórnarskrána einhverju lagaígildi. Í mínum huga er stjórnarskráin eingöngu heimspeki. Hún er í ætt við boðorðin tíu ef eitthvað er og ætti að vera svipuð, hún ætti nefnilega að vera svipuð, auðskilin og klár og segjandi og ekki allt að því ljúgandi eins og núverandi stjórnarskrá. Núverandi stjórnarskrá segir eitt og annað um forsetann sem ekkert er að marka af því að 13. gr. stjórnarskrárinnar tekur það allt úr sambandi með því að forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt, mjög merkilegt ákvæði og skrýtið og óskiljanlegt venjulegu fólki.

Ég var kominn að því að ræða nokkuð um umsagnir. Heilmikið hefur verið rætt um þessar umsagnir, frú forseti, og hafa sumir sagt að maður eigi ekki að endurtaka sig og ekki að endurtaka það sem aðrir hafa sagt. Ég hef reynt að gera það, en ég þarf líka að segja mína skoðun á þessu, við erum jú að ræða þessar umsagnir. Það sem mér finnst verst í þeim umsögnum sem liggja fyrir, ég ætla bara að fara í gegnum örfáar, eru aðallega þeir aðilar sem segjast ekki geta gefið umsögn af því að tíminn sé svo stuttur. Mér finnst það virkilega miður. Ágúst Þór Árnason, Háskólanum á Akureyri, gefur t.d. þá umsögn að hann geti ekki gefið umsögn af því að tíminn sé svo stuttur. Við fáum því aldrei að vita hvað sá maður vildi eða hvað hann hélt um stjórnarskrána.

Margir hafa talað um að þjóðin eigi að tala, þjóðin, það er alltaf verið að tala um einhverja þjóð. Krafan hefur verið sú að þjóðin eigi að koma að þessu máli og allt svoleiðis. Ég lít þannig á, frú forseti, að þessi umsagnabunki sé frá þjóðinni. Ef einhvers staðar er þjóð þá er það í þessum umsögnum. Það var gefið út að menn gætu skilað inn umsögnum og það hefur verið regla á Alþingi að nánast hver sem er, sem hefur áhuga á málinu, getur gefið umsögn. Ég veit ekki betra dokúment um þjóðina en þær umsagnir sem bárust til nefndarinnar. Það er mjög erfitt að finna vilja þjóðarinnar öðruvísi, ekki er hægt að láta 320 þús. manns tala á einhverjum fundi, alla vega ekki samtímis.

Hér er umsögn frá Hafsteini Þór Haukssyni þar sem hann útskýrir af hverju við viljum breyta stjórnarskrá. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í kjölfar efnahagshrunsins hafa komið fram tillögur um að breyta stjórnskipan Íslands, jafnvel efna til sérstaks stjórnlagaþings …“

Undir fyrirsögninni: „Stjórnskipunin þarf að standa af sér storminn,“ segir hann, með leyfi forseta:

„Ein meginástæða þess að jafnan er flóknara að breyta stjórnarskipunarlögum en öðrum lögum er sú að stjórnarskipunarlögum er ætlað að vera grundvallarlöggjöf sem stendur af sér tímabundnar pólitískar stefnubreytingar. Stjórnarskipunarlögin mynda þannig ákveðinn ramma utan um stjórnmálalífið sem þátttakendur í stjórnmálum, og raunar allir þjóðfélagsþegnar, þurfa að virða. Þetta hefur verið orðað svo að stjórnarskráin eigi að vera hafin yfir dægurþras stjórnmálanna. Takist þetta getur stjórnarskrá verið mikilvægt framlag til réttarríkis þar sem þjóðfélagsþegnarnir geta verið vissir um, og miðað ákvarðanir sínar við, að ákveðin grundvallaratriði réttarkerfisins haldist óbreytt til langs tíma.

Eigi stjórnarskipunarlög að vera til þess fallin að sinna framangreindu hlutverki hlýtur almennt að teljast heppilegra að slík lög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt þeirra sem búa eiga við þau. Sú tortryggni og þau átök sem nú einkenna íslenska þjóðmálaumræðu eru því ekki heppilegur jarðvegur fyrir samningu stjórnarskrár. Vissulega má benda á ýmis dæmi um stjórnarskrár sem samdar hafa verið við erfiðari aðstæður en uppi eru hér á landi en séu breytingar á stjórnarskránni ekki óhjákvæmilegar án tafar, svo sem í kjölfar nýfengins sjálfstæðis, hlýtur alla jafna að vera betra að geyma slíka vinnu þar til hægist um í þjóðfélaginu.“

Hér er sagt mjög greinilega að ekki eigi að breyta stjórnarskránni við svona viðkvæmt ástand eins og nú er. Reyndar hefur verið bent á þetta atriði af öðrum en ég vildi koma því að að þetta er líka mín skoðun.

Ég nefndi líka athyglisverða hugmynd um það að til stjórnlagaþings verði ekki kosið heldur verði fulltrúar hreinlega valdir úr þjóðskrá með tilviljunarkenndum hætti. Þetta er frá Samtökum um lýðræði og almannahag, Þór Saari. Athyglisverð hugmynd nema það að hann vill velja 600 manna úrtak og jafnmarga til vara og þurfa þykir vegna forfalla, áhugaleysis eða vanhæfis, og hann vill að stjórnlagaþingseta verði fullt starf. Hann talar um vanhæfi og þá þarf líklega að setja einhverja nefnd sem metur hvort fólk kunni að lesa o.s.frv. Þó að hugmyndin sé nokkuð skemmtileg hygg ég að hún sé, vegna þessa ákvæðis, kannski illframkvæmanleg.

Frá BSRB kemur mjög athyglisverð umsögn, með leyfi forseta:

„BSRB styður öll ofangreind ákvæði frumvarpsins og telur mikilvægt að það verði samþykkt fyrir þinglok.“

Mjög athyglisvert, þeir hafa bara enga skoðun á málinu, þeir ætla bara að samþykkja allt saman. Það skyldi nú ekki vera vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra er og hefur verið formaður þessara samtaka og hefur í rauninni breytt þeim í stjórnmálaflokk. Formaður samtaka opinberra starfsmanna hefur í reynd breytt þeim samtökum í stjórnmálaflokk.

Hér eru nokkrar umsagnir frá orkufyrirtækjum, Rarik, HS Orku, Samorku o.s.frv. Öllum þeim umsögnum er það sameiginlegt að — eins og kemur fram í umsögn frá HS Orku, með leyfi frú forseta:

„HS Orka vill þó nota tækifærið og árétta sérstaklega að sá frestur sem gefinn er til svo veigamikilla breytinga er ekki boðlegur. Þá er skilgreiningu hugtaka mjög ábótavant og loks tekur HS Orka hf. undir kröfu Samorku um að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr.“

Í umsögn Landssambands smábátaeigenda kemur líka fram — ég ætla að lesa stutt úr því, ekki allt, með leyfi forseta:

„LS finnst mjög miður hversu knappan tíma það hefur til umsagnar um þetta mikilvæga mál.“

Þetta er eiginlega grunntónninn í mjög mörgum umsögnum en þó ekki öllum, ekki frá BSRB t.d., þeir höfðu alveg nægan tíma til að veita sína djúphugsuðu umsögn.

Í nefndaráliti meiri hluta sérnefndarinnar eru lagðar til töluverðar breytingar á frumvarpinu. Það er í sjálfu sér jákvætt og sýnir að menn hafa lagt í þetta töluverða vinnu á þeim ótrúlega stutta tíma sem menn höfðu til stefnu. Þeir tala þar um náttúruauðlindir og það er hugtak sem mér er hugleikið, þ.e. hvað er auðlind, hvað þá náttúruauðlind.

Þjórsá er t.d. eitt dæmi um náttúruauðlind. Menn líta á hana sem orku, þar er fallorka. Fyrir 200 árum, við skulum fara svo langt aftur, þá var hún bölvaldur. Hún var bölvaldur sem stóð í vegi fyrir samgöngum og það þurfti ferjumenn til að komast yfir þessi ósköp — ég efast ekki um að margir hafi misst hund sinn eða hest í Þjórsá og jafnvel einhverjir drukknað. Þjórsá var greinilega ekki auðlind á þeim tíma. Svo breyttist hún í auðlind með tímanum. Þegar búið er að setja svona í stjórnarskrá, sem á að vera varanleg til lengri tíma, þá dettur ýmislegt inn og út. Hér hefur verið nefnt, af hv. þm. Jóni Magnússyni, að auðlind getur líka horfið, fiskstofn getur horfið — það var sennilega hv. þm. Árni M. Mathiesen sem nefndi að auðlind getur farið, fiskur sem er í kvóta getur hætt að vera í kvóta og svo getur hann líka komið inn eins og makríll, allt í einu getur einhver fiskstofn sem ekki var auðlind orðið auðlind.

Það er fleira sem getur verið auðlind. Ég gat þarna um orkuna sem var einu sinni ekki auðlind, þ.e. fallvötnin. Ég nefni rafsegulbylgjur, þ.e. úthlutun útvarps- og sjónvarpsbylgna eða slíks — að þegar farið er að úthluta því verða það gífurleg verðmæti varðandi t.d. GSM-síma og allt slíkt. Allt í einu er það sem menn vissu ekki einu sinni að væri til orðin auðlind.

Ég minni á Bill Gates sem bjó til Microsoft og allan þann hugbúnað, Windows. Hann hefur aldrei selt neitt efnislegt og samt er hann moldríkur, sennilega ríkasti maður heims, (Gripið fram í.) vegna þess að hann uppgötvaði ákveðna auðlind sem er forritun, þessi hugsun hans fyrst með DOS-kerfið, Disc Operating System, sem hann fann upp í bílskúrnum heima hjá sér og svo fór hann að búa til þetta Windows-kerfi sem sló í gegn. Þá allt í einu verður hann moldríkur úr engu. Allir menn á jörðinni hefðu getað fundið þetta kerfi upp en hann gerði það einn og þetta var greinilega auðlind. Er þetta eitthvað sem þjóðin á, t.d. bandaríska þjóðin, eða á hann þetta sjálfur?

Það er sem sagt mjög erfitt að segja hvað er auðlind. Ef maður lítur á orðið sjálft segir maður auð-lind, það er lind sem auður streymir upp úr. Það er bara ekki rétt því að það gerist ekki neitt fyrr en maðurinn kemur að því, mannshöndin eða mannshugurinn aðallega. Þetta er í rauninni hugvitið, og kannski erum við ekki að tala um auðlind, ekki um náttúruauðlindir, heldur um mannauð. Það skyldi nú ekki vera að menn séu í rauninni að tala um mannauð?

Sumir einblína mjög á fiskveiðistefnu og auðlindina í sjónum. Sumir eru svo uppteknir að þeir sjá eiginlega ekkert annað, sjá ekki allt það sem ég er að benda á. Hvenær varð fiskurinn í sjónum auðlind, vita menn það? Það gerðist 1983 þegar aðgangurinn var takmarkaður. Það er ekki fyrr en þá að þetta varð auðlind þegar sumir fengu að veiða og aðrir ekki, þá varð þetta auðlind. Það var gert til þess að takmarka aðgang að auðlindinni þannig að fiskurinn í sjónum hyrfi ekki vegna þess að tæknin var komin á það stig að mjög auðvelt varð fyrir mjög vel vélvædd skip að veiða upp allan stofninn. Það var sem sagt tæknin sem gerði það að verkum að takmarka þurfti aðganginn og eftir að búið var að takmarka hann varð þetta auðlind. Það er því ekkert voðalega auðvelt að sjá hvað það er.

Áður fyrr borguðu menn — það er kannski ljótt að segja það — með mannslífum. Það var óskaplega mikið manntjón í sjávarútvegi. Í vetur barst t.d. sú gleðilega frétt, sem ég var alveg hissa á að menn skyldu ekki halda upp á, að í fyrsta skipti, árið 2008, fórst enginn maður á sjó, enginn. Síðustu öld fórust 4.000 manns, það eru 40 manns á ári að meðaltali, nánast einn á viku. Þetta hefði þjóðin átt að halda upp á þegar maður hugsar um allar þær ekkjur og öll þau börn sem hafa misst feður sína í sjóinn. Sú hefur alla tíð verið raunin frá því að Ísland byggðist, m.a.s. þegar menn fóru yfir hafið til Íslands fórust margir. Þetta varð því ekki auðlind fyrr en skipin urðu svo örugg og reglurnar svo góðar, öryggisreglurnar og allt það, að menn gátu í rauninni veitt fiskinn upp.

Þetta var um auðlindina og ég gæti talað mikið um sameign, einkaeignarrétt og allt það en ég ætla ekki að gera meira af því. Menn tala sem sagt um ríki og þjóð, það er nú eitt — ég veit ekki hvað ég á að kalla það. Eins og ég benti á í kvöld, í andsvari held ég að það hafi verið — já, við hv. þm. Jón Magnússon. Ég benti á að til eru þjóðir sem búa í mörgum ríkjum, eins og Kúrdar, og til eru ríki sem í búa marga þjóðir, eins og Belgíumenn. Það er því ekki samasemmerki milli ríkis og þjóðar. Ríki er í mínum huga lögpersóna sem hirðir t.d. af mér skattinn. Ég er ekkert ríki, ég get ekki labbað inn í eitthvert ríkisfyrirtæki og hirt einn stól og sagt: Ég á þennan stól. Það er ekki þannig heldur er ríkið lögpersóna sem heldur utan um sitt og það er einmitt hlutverk stjórnarskrár að takmarka völd ríkisins. Ég fór mjög vel í gegnum það þarna um nóttina, og ég ætla ekki að fara að endurtaka það, til hvers stjórnarskrá væri og til hvers ríki væri. Ég rökstuddi það allt saman í þeirri ræðu.

Frumvarpið — ég ætla kannski bara að hlaupa aðeins yfir það, tíminn líður svo hratt. Ég ætla að fara í gegnum núverandi fyrirkomulag á breytingum á stjórnarskrá. Það er því miður afskaplega þunglamalegt. Ég fór í gegnum það í umræddri ræðu minni um nóttina, fór í gegnum ýmsa galla í stjórnarskránni. Hún er alveg meingölluð, frú forseti, og ég er mjög áfram um að henni verði breytt umtalsvert. Einn af göllunum er einmitt breytingar á stjórnarskránni. Það stendur í stjórnarskránni, 79. gr., að þegar búið er að samþykkja breytingu á stjórnarskránni á Alþingi skuli rjúfa þing og það á að kjósa um breytinguna. Í reynd er það þannig að menn fresta alltaf breytingunni þangað til kemur að lokum kjörtímabils af því að menn vilja ekkert vera að hætta þingi. Breytingin á sér því alltaf stað eiginlega á fjögurra ára fresti, rétt fyrir lok kjörtímabils, af því að það þarf að rjúfa þing og boða til kosninga og svo er kosið. Kosið er um þing til næstu fjögurra ára samhliða breytingu á stjórnarskránni og sú breyting hverfur alltaf í skuggann af kosningu til Alþingis til fjögurra ára. Þetta hvort tveggja er mjög slæmt.

Alþingi er líka að vinna að breytingum á stjórnarskránni í aukaverkum. Skipuð er nefnd og hún hittist endrum og eins, einu sinni í mánuði eða þar um bil, og fær sérfræðinga o.s.frv., en þetta eru allt saman aukastörf. Ég er því mjög hlynntur þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir á 79. gr., að sett verði á laggirnar sérstakt stjórnlagaþing sem geri ekkert annað en að breyta stjórnarskránni og hægt sé að breyta stjórnarskránni með einni einfaldri breytingu þannig að ekki þurfi alltaf að rjúfa þing og að þjóðin greiði atkvæði um stjórnarskrárbreytinguna eina sér. Menn hafa reyndar talað um að þetta sé gert í samfloti við aðrar kosningar eins og sveitarstjórnarkosningar og annað slíkt, mér finnst það vera móðgun við stjórnarskrána. Það á að kjósa um þessa breytingu eina sér og þó að það kosti peninga, frú forseti. Stjórnarskráin er í mínum huga það verðmæt að menn eiga ekki að horfa í það.

Þetta hvort tveggja ræði ég — ég er sem sagt mjög hlynntur því að breyta 79. gr., það er eiginlega það eina sem þarf að breyta til þess að við getum farið að breyta stjórnarskránni oftar. Ég lagði fram frumvarp á mjög öflugum landsfundi sjálfstæðismanna — sem var samþykkt — einmitt í þá veru að stjórnarskránni yrði breytt, 79. gr., þannig að hægt sé að breyta stjórnarskránni. Þetta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á þeim öfluga og sterka fundi.

Ég vil að menn einhendi sér í að breyta 79. gr. Hættan er sú að 1., 3. og 4. gr. — mér finnst eins og það sé verið að plata mig og Framsóknarflokkinn, það sé hreinlega verið að plata okkur. Þarna er verið að breyta ákvæði um auðlind, það er verið að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Bíðum við, á ekki að fara í gang með stjórnlagaþing sem á að breyta stjórnarskránni? Af hverju eru menn að breyta þessu ef stjórnlagaþing á að fara í gang? Ég hef grun um að menn ætli ekkert að fara í gang með stjórnlagaþing. Það er verið að plata mig og Framsóknarflokkinn, það getur ekki annað verið. Af hverju erum við að breyta 1. gr., af hverju eru menn með 1. og 3. gr. ef það á að fara að breyta stjórnarskránni í heild sinni?

Nú er tími minn búinn, frú forseti, en ég þarf að fá að klára önnur mál.