136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir beiðni hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Nú er það svo að vandi íslenskra íbúðareigenda magnast með hverjum deginum sem líður. Þeim sem fylgjast með gengi íslensku krónunnar sjá að það lækkar í gríð og erg og magnar það mjög vandann hjá fjölda heimila í landinu.

Þess vegna er alveg gríðarlega nauðsynlegt að Alþingi einbeiti sér að því að vinna í lausnum fyrir fólkið í landinu, fyrir heimilin. Nú förum við sjálfstæðismenn enn á ný fram á það við virðulegan forseta að gert verði hlé á umræðunni um stjórnarskrána og tekin fyrir mál sem skipta svo gríðarlega miklu máli fyrir heimilin og þau afgreidd í góðri sátt. Það mál sem hér er verið að ræða hefur að baki sér alla þá nefnd sem afgreiddi málið fyrir skömmu. (Forseti hringir.) Það er engin afsökun fyrir því að bjóða þjóðinni upp á þau vinnubrögð (Forseti hringir.) sem nú tíðkast hér í sölum Alþingis.