136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[10:50]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um þjóðareign á náttúruauðlindum. Hins vegar er hvergi tilgreint í frumvarpstextanum hvaða auðlindir það eru sem eru þjóðareign og í skýringum er vísað til þess að það eigi að ákvarðast með lögum og vísað í lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þessi texti í frumvarpinu kveði upp úr með það hvaða auðlindir séu í þjóðareign núna, t.d. hvort hann telji, ef þetta verði samþykkt, að fiskstofnar við Ísland séu þjóðareign og hvort hann telji að unnt sé þá að færa auðlindir úr þjóðareign með einfaldri breytingu á lögunum sem vísað er til, t.d. í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og lögum um stjórn fiskveiða. Fróðlegt væri að fá að vita hvort það sé mat hans að þetta ákvæði nái því markmiði sem því er ætlað að stefna að.