136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur hjá hv. þm. Merði Árnasyni — sem hleypur á brott úr þingsalnum um leið og hann mætir því að honum sé svarað og sýnir auðvitað þingmönnum og þinginu þá virðingu sem hann kýs og er svona í samræmi við það sem hann hugsar væntanlega til þingsins og þingmanna — að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir tveir sem hafa talað höfum verið að umhverfast í ræðustólnum. Mitt erindi var nú fyrst og fremst að bera lof á hv. þm. Mörð Árnason fyrir að hann af sínu hjartans lítillæti sem allir þekkja sem hafa fylgst með honum héðan úr ræðustól Alþingis að hann hefur til að bera í miklum mæli, að hann af sínu hjartans lítillæti var að segja okkur þingmönnum og virðulegum forseta, alveg sérstaklega, til.

En það er þannig og ég get borið vitni um það gagnstætt því sem á við um hv. þm. Mörð Árnason að ég hef setið hérna og fylgst með þessum umræðum. Ég ætla að bera vitni um það að fundarstjórn forseta, þeirra forseta sem hafa verið hér á forsetastóli í morgun hefur verið til mikillar prýði. Það er alveg óþarfi fyrir hv. þingmann að setja á einhverja lexíu og vera að reyna að kenna mönnum hvernig eigi að umgangast þingið. Hann hefur ekki úr háum söðli að detta sá hv. þingmaður.