136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:19]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegur forseti. Ég fór fram á það áðan að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að flutningsmenn málsins yrðu viðstaddir ræðu mína. Nú háttar svo til að enginn flutningsmaður málsins er í salnum — jú, hér kom inn hv. þm. Atli Gíslason. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, núverandi formaður — ég býð Birki J. Jónsson líka velkominn í salinn og hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon. Ég átta mig á því að þungavigtarliðið í röðum stuðningsmanna frumvarpsins er mætt þótt hér vanti forsætisráðherra en það skal tekið fram að hæstv. forsætisráðherra ræddi við mig og sagði mér frá því, eftir að sú ósk kom fram frá minni hálfu að hún yrði viðstödd ræðu mína, að vegna annarra starfa gæti hún ekki verið það. Ég tjáði henni að ég mundi þá bara bera fram spurningarnar síðar í umræðunni, þ.e. eftir páska væntanlega en kann henni þakkir fyrir að hafa komið þeim orðum til mín að hún væri bundin við önnur störf. Að sjálfsögðu verður að virða það þegar fólk sem gegnir jafnvirðulegum og viðurhlutamiklum störfum er bundið.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, núverandi formaður stjórnarskrárnefndarinnar, gat þess áðan í ræðu sinni að honum fyndist sem hann væri enn og aftur að horfa á kvikmynd sem hann kallaði Groundhog Day sem fjallaði um það að söguhetja myndarinnar upplifði stöðugt sama daginn. Það vill þannig til að ég hef líka séð þessa ágætu mynd sem er með betri kvikmyndum og má mæla með henni þó að það sé spurning hvort hún eigi erindi inn í umræður um stjórnarskrárfrumvarp lýðveldisins. En þannig háttaði til að söguhetju vorri í myndinni leið stöðugt betur og dagarnir urðu stöðugt betri eftir því sem á leið, slysum fækkaði og hlutirnir urðu með betra móti. Þannig mundi það líka vera ef sú þróun gæti orðið varðandi þetta frumvarp sem og umræður um stjórnarskrána og framgang þess máls þannig að menn gætu komið í veg fyrir þau slys og þau vandamál sem fyrir liggja í því frumvarpi sem hér um ræðir.

Ég hefði talið heppilegt að miðað yrði við þær aðstæður sem fyrir hendi eru, þ.e. að alþingiskosningar verða innan skamms tíma. Heppilegt hefði verið ef hægt hefði verið að leysa þetta mál með samkomulagi. Æskilegt hefði verið ef orðið hefði verið við tilmælum mínum um að málinu yrði vísað í sérnefnd um stjórnarskrána og umræðum frestað. Ég fór fram á það áðan en það svar sem ég fékk frá formanni sérnefndarinnar var eingöngu talnaleikur um hvað einstakir þingmenn hefðu talað oft í umræðunni sem ég get ekki séð að skipti höfuðmáli. Hv. þm. Atli Gíslason hefur ítrekað komið upp og sagt að ekkert nýtt komi fram í umræðunni og að málið sé fullrætt.

Það er mjög margt sem er eftir órætt í þessu máli. Því hefur verið haldið fram í umræðunni að við sjálfstæðismenn viljum engar breytingar á stjórnarskránni, að við séum á móti öllum breytingum á stjórnarskránni en það er alrangt. Ég leyfi mér að vísa til þess sem kom fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um þetta efni en þar var m.a. samþykkt að stjórnarskrá lýðveldisins er kjölfesta stjórnskipunar landsins. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur að hana þurfi að endurskoða og hún þurfi ætíð að vera í endurskoðun, hér eftir sem hingað til. Lögð verði áhersla á mikilvægi þess að vandað sé til verka við breytingu á stjórnarskrá og tryggð verði aðkoma þjóðarinnar. Í því skyni verði 79. gr. stjórnarskrárinnar breytt þannig að framvegis megi breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þing og skuli bera breytingar á stjórnarskrá sem Alþingi samþykkir undir þjóðaratkvæði.

Það liggur því fyrir og hefur verið talað um í sérnefndinni og við meðferð málsins, að samkomulag ætti að geta náðst um þetta atriði. Það höfum við sjálfstæðismenn ítrekað.

Annað sem kemur fram er atriði sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti varðandi breytingar á stjórnarskrá. Það var m.a. að skýra þyrfti betur þrígreiningu ríkisvaldsins og lögð áhersla á mikilvægi þess að staða löggjafar gagnvart framkvæmdarvaldinu sé styrkt sérstaklega. Það var það sem var kallað á í þjóðfélaginu, að Alþingi hefði styrkari stöðu, og hvernig bregðast hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra við? Þau leggja fram frumvarp um að flytja völd og áhrif frá Alþingi, þau vilja taka völd frá Alþingi sem er þveröfugt við það sem við viljum gera og sem var ákall þjóðarinnar varðandi breytingar á þessari mikilvægustu stofnun. Ég hef rætt það áður í umræðunni að það skipti miklu máli að Alþingi hefði frekari frumkvæðisrétt en það hefur haft, sérstaklega á tímum eins og þeim sem riðu yfir þjóðina í byrjun október, þannig að Alþingi hefði möguleika á að grípa inn í, kalla eftir upplýsingum og hreinlega vera með rannsóknarnefndir. Það hefði mér fundist mikilvægasti hluturinn sem menn hefðu átt að einhenda sér í til að Alþingi gæti haft einhvern frumkvæðisrétt.

En það eru fleiri atriði sem við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á sem þurfi að breyta, meðal annars að það þurfi að skoða stjórnskipulega stöðu forseta Íslands, þar á meðal synjunarvald forsetans. Ég hef talað um það áður í umræðunni að það sé eitt af því sem þurfi sérstaklega að skoða. Það væri heppilegra að hægt væri að bera mál undir þjóðina og það væri þess vegna í höndum minni hluta þings sem ákveðin minnihlutavernd eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur komið að í umræðunni og rökstutt með mjög góðum hætti.

Þá er vikið að því að þingmenn ættu ekki að sitja í stjórnum eða nefndum eða taka launuð störf utan Alþingis.

Jafnframt er vikið að því að setja þurfi lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og nánari ákvæði um stjórnskipulega stöðu ráðherra og ráðherrar gegni ekki þingmennsku á sama tíma og þeir eru ráðherrar. Atriðin eru mun fleiri en fjallað er um hér og ítarlegri en fjallað er um í því frumvarpi sem hér um ræðir. Það er alrangt að við sjálfstæðismenn séum á móti breytingum á stjórnarskrá. Við erum á móti því að sköpuð sé stjórnskipuleg ringulreið eins og ég hef ítrekað sagt þar sem það frumvarp sem hér liggur fyrir, sérstaklega ákvæði 4. gr frumvarpsins, muni leiða til stjórnskipulegrar ringulreiðar og er mér gersamlega óskiljanlegt hvernig á því stendur að flutningsmenn ætli sér að fara fram með þeim hætti.

Þá er það einstaklega furðulegt sem kom fram miðvikudaginn 8. apríl, þ.e. í dag, og er haft eftir hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að þau gefi lítið fyrir athugasemdir fræðimanna um stjórnarskrármálið. Hvers konar sjónarmið eru það? Að sjálfsögðu hljóta ábyrgir stjórnmálamenn alltaf að taka tillit til athugasemda og sjónarmiða fræðimanna. Það er ekki þar með sagt að þeir þurfi endilega að vera sammála þeim, einkum ef einhver eða mikill ágreiningur er meðal fræðimanna um þau atriði sem um er að ræða, en svona athugasemd á tæpast við. Að vísu vísar hæstv. fjármálaráðherra til þess að talsvert af athugasemdunum beinist að málsgreinum greinanna um auðlindaákvæði sem snúa að tillögum meiri hlutans sem hafa verið fjarlægðar úr frumvarpinu. Það er að hluta til rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra en athugasemdirnar beinast líka að öðru. En það ber ávallt að virða umsagnaraðila þótt maður sé ekki sammála þeim. Að sjálfsögðu ber að gera það, annað er óeðlilegt og ekki viðurkvæmilegt.