136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:21]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram í máli mínu þar sem ég hef reifað sambærileg sjónarmið og þau sem ég reifaði í síðustu ræðu minni standast þær fullyrðingar sem hv. þm. Atli Gíslason hefur hér frammi um afstöðu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni a.m.k. ekki þær upplýsingar sem við þingmenn höfum fengið um það sem þar fór fram.

Ég verð að láta öðrum eftir að svara þessu meira efnislega en þetta því að ég hef enga ástæðu hvorki til að rengja samflokksmenn mína né halda því fram að hv. þm. Atli Gíslason sé ekki að segja satt. Ég er ekki vön að bera það á fólk að það segi ekki sannleikann. En það virðist vera að einhver illilegur misskilningur hafi verið þarna á milli þingmanna ef hv. þm. Atli Gíslason hefur upplifað orð þingmanna Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa í sérnefndinni þannig að það væri enginn samkomulagsvilji. Það eina sem ég get í raun og veru sagt um þetta mál er að það virðist vera að menn hafi verið búnir að setja sig í slíkar stellingar í báðum herbúðum, ef svo má að orði komast, að menn hafi hreinlega ekki skilið hvað hinn var að segja. Að minnsta kosti hef ég ekki skilið þá umræðu sem fram hefur farið í þingflokknum öðruvísi en svo að alltaf hafi verið á borðinu mikill vilji hjá fulltrúum okkar til að ganga til sátta um þau atriði sem ég hef hér nefnt.

Ég spyr á móti áður en ég svara spurningunum: Hvað er á móti því að fresta umræðunni og fara með málið í nefnd? Af hverju er hv. þm. Atla Gíslasyni svona mikið kappsmál að ljúka umræðunni? Af hverju er ekki hægt að fallast á tillöguna? Er hún bara ómöguleg af því hún kemur frá okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins?