136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er bara bætt í eins og þingheimur heyrir. Hv. þm. Björn Bjarnason ætlar að standa hér endalaust hvort sem það er á nóttu eða degi til að koma í veg fyrir að stjórnlagaþing verði haldið.

Á síðustu áratugum hafa verið gerðar tilraunir til þess að breyta stjórnarskránni og menn hafa viljað fara í heildarendurskoðun en þær hafa allar mistekist. Það hefur kostað okkur óheyrilegt fé og þetta hefur valdið því að geysileg valdasamþjöppun hefur verið í landinu, ótrúlega mikil valdasamþjöppun á Íslandi. Það verður að aðgreina betur löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Það vill Sjálfstæðisflokkurinn greinilega ekki gera.

Mér finnst þær ræður sem hafa verið haldnar um þessi mál, og líka sú síðasta sem hér var flutt af hv. þm. Birni Bjarnasyni, vera svanasöngur gamla tímans. Við eigum að taka þetta skref, virðulegi forseti, að setja á stjórnlagaþing, kjósa til þess meðal þjóðarinnar og gera þar drög að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin fær síðan að kjósa um. En Sjálfstæðisflokkurinn með málþófi sínu ætlar að koma í veg fyrir það.

Því miður er það svo — þó að við höfum breytt þingsköpum fyrir stuttu til þess einmitt að hindra málþóf, reyna að takmarka það — að það stefnir í að málþóf muni hafa hér sigur. Við verðum bara að viðurkenna það. Við getum ekki staðið hér og þjarkað fram að kosningum um þetta mál. Fólk þarf að hitta okkur og það þarf líka að fara í mörg önnur mál og klára þau. Ég harma það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa viljað liðka til eftir páska þannig að við gætum náð lendingu í málinu, virðulegi forseti.