136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að fá enn á ný tækifæri til þess að ræða þetta mikilvæga mál og rifja upp að í lok umræðna, eftir að ég flutti ræðu fyrr í dag, stóð hv. þm. Siv Friðleifsdóttir upp og sagði að því miður stefndi í að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sigur í stjórnarskrármálinu, málþófsflokkurinn gæti haldið uppi málþófi og sett dagskrá þingsins í uppnám. Það gengi ekki svo skömmu fyrir kosningar, kjósendur yrðu að geta hitt þingmenn og mörg mikilvæg mál biðu afgreiðslu í þinginu.

Ég tek fullkomlega undir þessa ályktun hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og vil hvetja hæstv. forseta til að sjá til þess að þessi tilmæli hennar, um að kjósendur geti hitt þingmenn og að unnt verði að afgreiða mörg mikilvæg mál hér í þinginu áður en til þess kemur, nái fram að ganga og að dagskránni verði breytt á þann veg að þetta mál verði lagt til hliðar og önnur brýnni tekin til umræðu. Ég hef hvatt til þess í mörgum ræðum, og hef mælst til þess hvað eftir annað við hæstv. forseta, að hann beiti sér fyrir samkomulagi sem tæki einmitt mið af því sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi hér fyrr í dag, að það væri augljóst að þessu máli yrði ekki lokið á þeim tíma sem til stefnu er miðað við að boðað hefur verið til kosninga hinn 25. apríl nk.

Ég vil, virðulegi forseti, af þessu tilefni fara yfir dagsetningar þannig að við, hv. þingmenn, áttum okkur á því hvað hefur raunverulega verið lagt fyrir okkur í þessu máli. Hinn 11. mars sl. var frumvarpi til stjórnarskipunarlaga vísað til sérnefndar um breytingar á stjórnarskránni, en það var ekki fyrr en daginn eftir, hinn 12. mars, sem kosið var í nefndina og fyrsti fundur var haldinn föstudaginn 13. mars. Að kvöldi þess sama dags var málið sent út til umsagnar og umsagnarfrestur gefinn til 20. mars. Gefinn var vikufrestur til þess að segja álit sitt á þeim fjórum greinum sem frumvarpið byggist á.

Síðan hefur komið fram, virðulegi forseti, í umræðum um þennan umsagnarfrest og um það hverjir fengu þetta til umsagnar, og það hefur verið gagnrýnt að álfyrirtæki hér í landinu hafi t.d. fengið frumvarpið til umsagnar. Ég hef fengið fyrirspurnir frá fréttamönnum um það hvort það hafi verið að ósk okkar sjálfstæðismanna sem þessum aðilum var sent frumvarpið en svo var ekki. Við fengum á þessum föstudegi, 13. mars, sendan lista sem tekinn var saman af nefndasviði þingsins í samvinnu við formann sérnefndarinnar, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, sem nú hefur yfirgefið þingsalina — okkur var sendur þessi listi og okkur gefið færi á því að bæta inn á hann í síðasta lagi mánudaginn 16. mars þegar nefndin kom saman til síns fyrsta fundar.

Ég man ekki hvort við bættum við einum eða tveimur umsagnaraðilum en síðan hefur komið fram gagnrýni á að umsagnaraðilar hafi ekki verið nægilega margir og t.d. hafi erindum ekki verið beint til mannréttindasamtaka hér sem telja sig hafa sérstaka stöðu gagnvart stjórnarskránni og vafalaust eru það ýmsir fleiri sem eðlilegt hefði verið að bera þetta mál undir sem ekki fengu frumvarpið sent til umsagnar. En það er alveg skýrt að þeir aðilar sem fengu frumvarpið til umsagnar kvarta almennt undan því að skammtaður hafi verið allt of stuttur tími til að segja álit sitt á málinu auk þess sem þeir eru efnislega ósammála því sem í frumvarpinu segir, mismunandi eftir því hvaða greinar koma þar til álita en allir hafa einhverjar athugasemdir nema tveir ef ég man rétt, Alþýðusamband Ísland og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Í þessum umræðum hefur m.a. mjög rækilega verið vakið máls á því, m.a. af hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur, hve illa er staðið að því að undirbúa þetta mál og hve vinnubrögðin eru, ef ég má orða það svo, óvísindaleg eða ófagleg þegar um breytingu á stjórnarskránni er að ræða.

Það var ekki fyrr en mánudaginn 16. mars sem sérnefndin hóf störf og hún fundaði reglulega og hélt samtals 11 fundi og lauk störfum þriðjudag viku eftir 16. mars og þá vildum við, eftir að búið var að kalla til alla umsagnaraðila sem vildu koma til nefndarinnar eða þá aðila sem við töldum rétt að kalla til, fá tóm til þess að ljúka málinu með umræðum í nefndinni og kanna hvort unnt væri að leita sátta um málið. Þá sagði hv. formaður nefndarinnar að tími sátta væri liðinn og okkur kom það mjög á óvart að ekki væri unnt að leita sátta í málinu.

Eins og hæstv. forseta er kunnugt hafa síðan verið hér umræður um málið og málið hefur skýrst og æ betur hefur komið í ljós hve illa var að öllum undirbúningi þess staðið. Það er alveg ljóst af hálfu okkar sjálfstæðismanna að við leggjumst alfarið gegn því að frumvarpið nái fram að ganga. Ekki hefur tekist að ná neinni sátt um afgreiðslu málsins og ekki einu sinni sátt um það hvernig dagskrá þingsins skuli háttað í kringum málið. Þegar við mætum því viðhorfi hjá þeim sem hafa ráð þingsins í hendi sér að ekki er einu sinni unnt að semja við okkur um dagskrá þingsins getum við að sjálfsögðu ekki vænst þess að unnt sé að semja við okkur um efni þessa mikla máls sem snertir breytingu á stjórnarskránni. Viljaleysi þeirra sem ráða ríkjum þessa dagana á hinu háa Alþingi til þess að greiða fyrir gangi þingmála er því algjört og viljaleysið er einnig algjört þegar kemur að því að ræða um leiðir til þess að ná sátt um þetta mál.

Með því að neita sátt um þetta mál er verið að brjóta allar hefðir sem hér hafa gilt um meðferð breytinga á stjórnarskránni til þessa. Nefndar hafa verið tvær undantekningar frá sáttaleiðinni við afgreiðslu stjórnarskrárinnar, þ.e. við breytingu á kjördæmaskipaninni árið 1934 og aftur árið 1959. En aldrei, þegar rætt hefur verið um breytingar á efnisatriðum stjórnarskrárinnar og atriði sem lúta að efnisþáttum í stjórnarskránni, hefur verið gengið eftir þeim veg að sátta sé ekki leitað og ekki reynt að skapa sem víðtækasta pólitíska samstöðu um breytingar á stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Aðdragandi málsins einkenndist líka af þessu viljaleysi til þess að leita samkomulags og sátta sem blasti við öllum þegar málið kom til meðferðar hér í þinginu. Strax á fyrsta degi lýsti þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Geir H. Haarde, því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn sætti sig ekki við málsmeðferðina og hún ein væri þess eðlis að ekki mundi nást að klára þetta mál. Þetta hefur legið fyrir frá fyrsta degi umræðunnar hér í hinu háa Alþingi. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að við sjálfstæðismenn höldum áfram að ræða þetta mál á þeim grunni sem við höfum gert. Menn mega ekki gleyma því, þegar um þetta mál er fjallað hér í þingsalnum, að við erum þó 40% þingmanna, í Sjálfstæðisflokknum eru 40% þeirra sem sitja á þingi og að telja sér trú um að það sé skynsamleg leið til þess að þess að afgreiða stjórnarskrá í nokkru þjóðþingi — hvað þá heldur hér á Alþingi Íslendinga þar sem þessi hefð hefur ríkt um öll þessi ár með þeim hætti sem hér hefur verið staðið að, að menn geti náð því máli fram, það er fráleitt að vænta þess.