136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[23:30]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar bar með sér að hann hlustaði ekki nema á hluta af ræðu minni. Hann hefur væntanlega misst af því sem ég sagði að langmestu leyti.

Það sem ég þakkaði hv. viðskiptanefnd sérstaklega fyrir var að fara svo rækilega ofan í það frumvarp sem hér er til meðferðar og vakti athygli á umsögn m.a. Seðlabankans en þar kom fram að ákvæði sem hér eru á ferðinni þekktust ekki annars staðar. Sama gerðist í umsögn hins sérstaka saksóknara sem ég las upp úr og vakti athygli á og hefur leitt til þess sem hlýtur að vera athyglisvert að nefndin sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson situr í eins og fram kom í ræðu hans hefur saxað burt úr frumvarpinu langflestar greinar þess. Ég ætla ekki að fara að þreyta hv. þingmenn, nóg er nú samt, með því að fara ofan í efnisatriði 2., 4., 6., 8., 10., 12., 14. og 15. gr. frumvarpsins sem eru felldar burt og vísa til þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þekkir þetta náttúrlega prýðilega. Ég held að ég þurfi ekki að taka hann í sérstakt námskeið hér í efni þessara greina sem eru felldar burt úr frumvarpi sem hæstv. viðskiptaráðherra mælti hér með mikilli viðhöfn fyrir.