136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[23:32]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð ekki miklu nær í þessu andsvari um það hvað hv. þingmaður telur að betur mætti fara. Ég vil upplýsa það að ég hlýddi á alla ræðu hans og hún vakti athygli mína sökum þess að mér fannst hún á einn eða annan hátt vera í takt við það sem aðrir flokksmenn hans, hv. þingmenn í nefndinni, hafa einmitt vakið máls á og tekið undir og styðja málið. Það vakti því athygli mína að hv. þingmaður teldi nauðsynlegt að fara svona vandlega yfir umsagnir eins og hann gerði í ræðu sinni.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann sérstaklega að því hvort hann telji að sú hugmyndafræði sem býr að baki t.d. samkeppnislögum og ákveðnum úrræðum sem hægt er að beita í samkeppnislögum og hugmyndir hafa verið um að beita einnig varðandi fjármálamarkaðinn, hvort hv. þingmaður telji skynsamlegt að fara þá leið að beita sömu úrræðum og hugmyndin laut að eða eins og gert er ráð fyrir í breytingum sem gerðar voru á þessu frumvarpi. Það væri mjög fróðlegt og ég er ekki í nokkrum vafa um að það mundi dýpka umræðuna og veita frekari innsýn í þá möguleika sem löggjafinn hefur í því að reyna að bæta og efla löggjöfina á þessu sviði ef hv. þingmaður færi aðeins yfir það nokkrum orðum hvort rétt sé að beita sömu úrræðum og eru tiltæk í samkeppnisréttinum á því sviði sem hér um ræðir. Ég held að gaman væri að heyra hv. þingmann fara yfir sjónarmið sín í þeim efnum.