136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Marðar Árnasonar að mér finnst harla ósmekklegt af hv. þm. Jóni Magnússyni að nota hér það tilefni, þegar í fyrsta sinn í 13 ár er fjölgað þeim mönnum sem geta fengið listamannalaun í þessu landi — í 13 ár hefur ekki verið fjölgað í þessum hópi og að nota það tilefni til þeirra ávirðinga, ég vil bara kalla það það, sem fólgnar eru í samanburði hans við Dýrabæinn er ósmekklegt.

Ég er hingað komin til þess að árétta þá stefnu Vinstri grænna sem hæstv. menntamálaráðherra, varaformaður okkar, lýsti í gær, að við viljum taka á móti þessari kreppu og þeim skuldaklafa sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir á þjóðinni með því að verja störfin og jafna kjörin. Töluverð launalækkun hefur orðið á almennum markaði og það er nauðsynlegt að jafna kjörin, ekki bara launamun kynjanna heldur líka launamun á vinnustöðum þannig að þeir sem hæst hafa launin á opinberum stofnunum og í störfum leggi eitthvað af mörkum til þess að komist verði hjá hópuppsögnum, einkum í velferðarkerfinu, í heilbrigðisþjónustunni, í skólakerfinu og í félagsþjónustunni. Þetta er það sem skiptir máli og það er þetta sem varaformaður flokksins var að lýsa í gær og ég tek heils hugar undir og hafði reyndar skýrt út hér fyrr í dag.