136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar.

[10:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, formanns efnahags- og skattanefndar, vegna tíðinda sem mér finnst mjög uggvænleg, þ.e. vegna gengisfalls krónunnar undanfarnar vikur. Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra að þessu, fékk ekki viðhlítandi skýringu á því hvað ylli þessu. Frá áramótum styrktist krónan reglulega fram undir stjórnarskipti og eitthvað fram yfir þau, mánuð fram yfir stjórnarskipti, en síðan hefur krónan fallið verulega. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir heimilin í landinu, sérstaklega þau sem eru með gengistryggð lán, bílalán og íbúðalán, en ekki síður fyrir allan almenning því að það er viðbúið að verðbólga fylgi í kjölfarið sem kemur niður á öllum þeim sem skulda verðtryggð lán.

Þetta er mikið áhyggjuefni og ég ætla að spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort hann hafi á þessu einhverjar skýringar og viti hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir þessa þróun. Er eitthvað að ákvörðunum Seðlabankans um stýrivexti, þessa nýja Seðlabanka sem hæstv. forsætisráðherra hefur skipað alfarið einn, bæði peningastefnunefndina og þennan norska seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjórann og ber þar af leiðandi fulla ábyrgð á stýrivöxtunum? Seðlabankinn heldur uppi geysilega háum stýrivöxtum og það er spurning hvort þessir háu stýrivextir eigi þátt í því að fella krónuna í staðinn fyrir að styrkja hana.