136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[15:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ekki hef ég á móti því að 8. málið verði tekið á dagskrá. En það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur vikum saman komið í veg fyrir að hægt væri að ræða Helguvík. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur sett það mál í uppnám. Nú skammast hann sín og er að reyna að bjarga æru sinni í horn. (Gripið fram í.) Hins vegar kemur það fram og það er ákaflega mikilvægt að loksins kemur fram ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið í þessu ofbeldi vikum saman. Hann er að ganga erinda þeirra sem vilja ekki girða fyrir að náttúruauðlindir verði seldar eða látnar af hendi með varanlegum hætti. (Gripið fram í.) Það sem nú er að koma fram er einfaldlega það að Sjálfstæðisflokkurinn er að ganga erinda útgerðarauðvaldsins í landinu. Hann er að ganga erinda LÍÚ. Hann er að koma í veg fyrir að þjóðarvilji nái fram að ganga með því að í stjórnarskrá verði bundið ákvæði sem fortakslaust (Forseti hringir.) bannar að náttúruauðlindir verði seldar eða framseldar. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki það bann vegna þess (Forseti hringir.) að hann er að ganga erinda sægreifanna og kvótakónganna. (Gripið fram í.)