137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

lækkun stýrivaxta.

[15:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra segi þessa setningu hér úr ræðustól því svo virðist vera að ríkisstjórnin hafi ekki fullan ákvörðunarrétt á vaxtastigi Seðlabankans og þar af leiðandi peningamálum þjóðarinnar.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra aftur: Er það ekki rétt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé að setja einhverjar hömlur varðandi vaxtastigið og að það sé svo hátt t.d. af því að það tengist jafnvel veru erlendra fjárfesta hér á landi í gegnum jöklabréfin? Neitar hæstv. forsætisráðherra því alfarið að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi þar einhver áhrif?