137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Benda má á ýmislegt sem hefur tafið það að hægt sé að ganga frá áætlun með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, endurskoðaðri áætlun. Ég held að það sé alveg ljóst að kosningar og stjórnarskiptin hafa tafið það nokkuð að hægt sé að ganga frá þessari áætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það er töf sem fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins viðurkenna.

Það er líka alveg ljóst að við þurfum að ná fram endurskipulagningu á bankanum eins og kostur er áður en gengið er frá þeirri áætlun og við vonum að það geti orðið í byrjun júlímánaðar. Stefnt er að fundi hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir því sem ég best veit í byrjun júlímánaðar og þá vona ég að frá því sé gengið.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur líka áherslu á að búið verði eins og kostur er að ganga frá lánaskilmálum bæði vegna Icesave-reikninganna og eins vegna Norðurlandanna, Póllands og Rússlands og ég greindi frá því áðan á hvaða stigi það er. Ég er full bjartsýni á að það geti gengið eftir að áður en við göngum frá hinni endurskoðuðu áætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn geti þetta legið fyrir.

Lögð er áhersla á það af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fyrir liggi áætlun um ríkisfjármál. Það er alveg ljóst að við þurfum að taka á í því efni vegna þess að við erum að tala þar um 170 milljarða kr. halla og sennilega nálægt 20 milljörðum sem brúa þarf á þessu ári, m.a. vegna minna tekjustreymis. Að því er nú unnið hörðum höndum.

Það liggur fyrir og kom fram í 100 daga áætlun sem ríkisstjórnin lagði fram að lögð er áhersla á að áætlun varðandi ríkisfjármálin sem er til langs tíma, næstu 3–4 árin, liggi fyrir í þessum mánuði. Hún mun liggja fyrir í þessum mánuði og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veit það. Við munum vonandi geta kynnt hér á næstu dögum áætlanir um það sem við þurfum að taka á í ríkisfjármálunum að því (Forseti hringir.) er varðar þetta ár. Allt þetta tel ég að muni liggja fyrir þegar stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fjallar um okkar endurskoðuðu áætlun.