137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði í gær á hv. 10. þm. Reykv.n. flytja mjög innblásna ræðu um það hvernig Alþingi ætti að starfa sjálfstætt og alveg óháð framkvæmdarvaldinu og hvernig Alþingi ætti að reyna að styrkja stöðu sína gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nú gefst hv. þingmanni kjörið tækifæri til þess að hrinda þessum orðum sínum í framkvæmd.

Það sem hér er verið að fara fram á er ósköp einfaldlega þetta: Þingið er að óska eftir því að kallaðir séu saman fundir í viðskiptanefnd Alþingis til þess að ræða mjög brýn mál. Til að ræða yfirlýsingar Mats Josefssons sem hafa verið að birtast í fjölmiðlum án þess að þingið gæti haft beinan atbeina að því að ræða málin og brjóta þau til mergjar.

Nú hefur það gerst að hv. formaður nefndarinnar hefur komið hér upp í tvígang og haft tækifæri til að tjá hug sinn til þess að til slíks fundar sé boðað. Hv. þingmaður hefur svarað þessum óskum þingmanna með þögninni einni. Það verður að skiljast sem svo að hv. þingmaður hafi ekki áhuga á því að boða til slíks fundar. Ég og aðrir sem hér eru í þessum sal hlustuðum á mál hv. þingmanns og gerum okkur alveg grein fyrir því að hv. þingmaður skautaði fram hjá því að svara óskum hv. þingmanna um það að boða til fundar í nefndinni.

Nú vill svo til að í þingsköpum Alþingis er gert ráð fyrir því að minni hlutinn hafi völd og áhrif. Gert er ráð fyrir því í þingsköpum Alþingis að ef þriðjungur þingmanna í viðkomandi nefnd óskar eftir fundi í nefndinni beri hv. formanni nefndarinnar að hlýða því. Hv. þingmaður, sem er greinilega að reyna að koma sér undan því að halda þennan fund, verður, á grundvelli þess að fyrir liggur sú ósk frá fulltrúum þriðjungs þingmanna í viðskiptanefnd að slíkur fundur verði haldinn, að bregðast við þessu ella liggur það fyrir að hv. þingmaður er að brjóta þingsköp. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður vilji gera það. (Gripið fram í.)